Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem stendur yfir 25. september til 5. október, í samstarfi við alþjóðlega listahópinn Grettir Kabarett, býður nú öllum landsmönnum að búa til sína eigin stuttmynd sem verður sýnd í tengslum við hátíðina.
Kvikmyndagerðarmennirnir hafa einungis 72 klukkustundir til stefnu til að fullklára myndir sínar. Um þrjátíu manns koma að utan frá listahópnum Kabarett, þar á meðal skipuleggjandinn Sylvain Lavigne, til að taka þátt í verkefninu. Hópurinn kom á kvikmyndahátíðina í fyrra og fékk fjölda Íslendinga til liðs við sig. Þær myndir sem þá voru unnar hafa verið sýndar víða um heim, meðal annars í Montreal í Kanada.
Fyrsti fræðslufundur listahópsins verður haldin í Hressingarskálanum 27. september kl. 9, þar sem farið verður yfir verkefnið með þátttakendum og öðrum áhugasömum. Upptökutímabilin verða þrjú rétt eins og sýningarkvöldin, þar sem afrakstur verkefnanna verður sýndur á Grand Rokk.