Stefano Domenicali, framkvæmdarstjóri Ferrari telur að laun allra Formúlu 1 ökumanna gætu lækkað fyrir næsta keppnistímabil. Ferrari er með launahæsta ökumanninn, Finnan Kimi Raikkönen. Talið er að hann sé með um 40 miljónir dala í árslaun hjá Ferrari.
Laun Raikkönen er liðlega 10% af rekstrarkostnaði Ferrari og talið er að Felipe Massa sé með um 10 miljónir dala á ári. Fyrir utan bónus greiðslur.
"Ég held að á næstu mánuðum verði einskonar bylting í launamálum ökumanna. Það er öll lið að leita leiða til að minnka rekstrarkostnað til að þola efnahagskreppuna. Ég hef trú á að öll lið muni ræða við ökumenn sína", sagði Domenicali í samtali vð tímaritið Autosprint.
Aðspurður um hvort hann hygðist breyta samningi við Raikkönen sem var endurnýjaður á þessu ári sagði Domenicali.
"Það er hægt að breyta öllu ef vilji er fyrir hendi. Við vitum hvað samningurinn hljóðar upp á og ég er viss um að öll lið muni ræða við ökumenn sína fyrir næsta keppnistímabil" sagði Domenicali.
Í sumum tilfellum eru ökumenn að koma með auglýsendur með sér til liða, þannig að lækkun á launum hjá þeim er ólíkleg.