Erlent

Neðanjarðarborg undir síkjunum í Amsterdam

Óli Tynes skrifar
Neðanjarðarborgin yrði á sex hæðum.
Neðanjarðarborgin yrði á sex hæðum.

Yfirvöld í Amsterdam eru hlynnt áætlunum um að byggja sex hæða neðanjarðarborg undir síkjum höfuðborgarinnar.

Þau yrðu tæmd eitt af öðru meðan á framkvæmdum stæði og svo fyllt á nýjan leik. Í þessari neðanjarðarborg yrðu bílastæði, kvikmyndahús, íþróttahús, vörugeymslur og fleira.

Það er byggingaverktakinn Strukton sem er í eigu hollensku járnbrautanna sem hefur lagt fram áætlun um þetta. Fáar þjóðir hafa eins mikla reynslu af því og Hollendingar að sækja sér nýtt land út í sjó eða neðanjarðar.

Þrengsli í Amsterdam eru til mikilla vandræða. Íbúar í sögufrægu gömlu húsunum sem liggja meðfram síkjum borgarinnar þurfa oft að bíða í mörg ár eftir að fá bílastæði. Stæði í bílahúsi geta kostað upp í tíu milljónir króna.

Göturnar meðfram síkjunum eru einstefnugötur og þær geta verið lokaðar klukkustundum saman vegna sendibíla sem eru að koma með vörur, eða öskubíla sem eru að hirða sorp.

Strukton er nú þegar að byggja nýja umferðarmiðstöð undir járnbrautarstöðinni í Amsterdam. Það er fyrir nýja neðanjarðarlest sem á að tengja norður- og suðurhluta borgarinnar. Núverandi ofanjarðartengsli hafa verið ein samfelld umferðarteppa í mörg ár.

Talsmaður Strukton segir að það muni taka um 20 ár að klára neðanjarðarborg undir síkjunum og kosta um tíu milljarða evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×