Formúla 1

Alonso: Gleymum hneykslinu og keppum

Fernando Alonso svarar atgangshörðum blaðamönnum í Singapúr.
Fernando Alonso svarar atgangshörðum blaðamönnum í Singapúr. mynd: getty Images

Fernando Alonso hjá Renault vann mótið í Singapúr í fyrra og var hreinsaður af öllum áburði um að hafa tekið þátt í samsæri um að svindla eins og Renault lið hans var dæmt fyrir.

"Ég undirbý mig af kostgæfni fyrir mótið og hugsa ekki um annað. Það sem gerðist í fyrra er búið og það er tími til kominn að horfa fram veginn", sagði Alonso sem hefur verið umsetinn fjölmiðlamönnum. Keppt er í Singapúr um helgina og ökumenn aka á tveimur æfingum í dag.

"Ég þarf að einbeita mér að kappakstrinum og svo er keppt í Japan um næstu helgi. Ég vonast til að ná góðum árangri á ný. Pat Symonds og Flavio Briatore eru ekki hér, en það er fullt af vönum mönnum sem vinna vel. Það eru læti í fjölmiðlamönnum en ég er viss um að hugur manna verður á kappakstrinum um helgina, ekki því sem liðið er."

Sýnd verður samantekt frá æfingum keppnisliða í Singapúr á Stöð 2 Sport í kvöld.

Sjá brautarlýsingu frá Singapúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×