Breska veðrið og hin breska Silverstone braut hefur góð áhrif á Þjóðverjann Sebastian Vettel hjá Red Bull. Hann náði besta tíma á seinni æfingu keppnisliða í dag, rétt eins og á þeirri fyrri. Félagi hans Mark Webber var næst fljótastur. Bíll hans bilaði þó í lok æfingarinnar.
Vettel er staðráðinn í að standa upp í hárinu á Jenson Button sem er á heimavelli og með forystu í stigamóti ökumanna. Vettel er í þriðja sæti í stigamótinu á eftir Button og Rubens Barrichello, sem báðir aka Brawn GP bíl.
Bílar Red Bull voru liðlega hálfri sekúndu fljótari en bílar Adrian Sutil hjá Force India og Kazuki Nakajima á Williams.
Vettel hefur unnið eitt mót á árinu, en Button sex. Tíu mót eru enn eftir í stigamótinu og keppt verður á Silverstone í síðasta skipti á sunnudaginn.
Ítarlega verður fjallað um æfingar dagsins og deilurnar í Formúlu 1 í sérstökum þætti í kvöld kl. 19.25 á Stöð 2 Sport.
Sjá brautarlýsingu frá Silverstone