Kreppukosningar Sverrir Jakobsson skrifar 21. apríl 2009 06:00 Það er hálfeinkennileg upplifun, eftir þjóðargjaldþrot og búsáhaldabyltingu, að nú standi yfir kosningabarátta á Íslandi og þó ekki síður hvað áróður stjórnmálaflokkanna hefur breyst ótrúlega lítið frá 2007. Lærdómurinn sem stjórnmálaforingjarnir og auglýsingastofur þeirra hafa dregið af hruni íslensks efnahagslífs virðist rista ótrúlega grunnt. Enn er öllu fögru lofað eins og verið sé að selja hreinsilöginn Cillit Bang og magn auglýsinga virðast vera í sömu hlutföllum og styrkirnir sem flokkar náðu að sópa til sín á lokadögum ársins 2006. Ég efast hins vegar um að nokkur láti þessar auglýsingar hafa áhrif á sig. Staðreynd málsins er sú að við þekkjum öll stjórnmálaflokkana og við vitum nákvæmlega hvað þeir standa fyrir. Það er einungis eitt kosningamál: Hvað hafa flokkarnir sagt og gert í efnahagsmálum 1991-2009. Ólíkt því sem auglýsingasmiðir virðast halda er fólk ekki fífl og því má fastlega búast við því að flokkarnir verði metnir að verðleikum eins og skoðanakannanir benda til; Sjálfstæðisflokkurinn mun tapa mestu fylgi og Vinstrihreyfingin - grænt framboð bæta mestu við sig. Og sú útkoma væri enda fullkomlega makleg. Flokkarnir sem hafa verið við stjórnvölinn eiga skilið hegningu fyrir frammistöðu sína við stjórn landsins undanfarna áratugi. En síðan þarf að huga að framtíðinni og hvernig við byggjum upp það sem stjórnarstefna undanfarinna ára hefur eyðilagt. Lærdómurinn af kreppu undanfarins vetrar er kannski fyrst og fremst sá að Ísland er ekki verndað umhverfi. Alþjóðlegar efnahagshræringar hafa áhrif á okkur og í alþjóðlegu efnahagslífi skiptir máli að hegða sér með ábyrgum hætti. Það var það sem brást meira eða minna á Íslandi; peningamennirnir risu ekki undir þeirri ábyrgð og þeim völdum sem þeim voru fengin. Stærstu fyrirtækjum Íslendinga var illa stjórnað og því fór sem fór; þó að enginn þurfi að efast um að mörg vel rekin fyrirtæki hafa verið dregin niður með þeim í fallinu. Hitt sem við getum lært af Icesave-málinu og nauðungarsamningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er að útlendingar munu ekki koma og bjarga okkur á stund neyðar. Þvert á móti ætlast þeir til að staðið sé við samninga í samræmi við alþjóðareglur. Það er svo annað mál hversu réttlátar slíkar reglur eru þar sem þær virðast eingöngu snúast um að verja hagsmuni fjármagnsins. En það kvörtuðu ekki margir á Íslandi yfir því að vitlaust væri gefið á dögum útrásarinnar. Núna höfum við kynnst því af eigin raun. Pólitísk hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er gjaldþrota eins og verk hans sjálfs í kreppunni hafa sýnt. Þetta varð lýðum ljóst mánuðina þegar íslenska ríkið yfirtók bankana og tekin voru upp gjaldeyrishöft. Þá kom í ljós að í kreppu duga úrræði frjálshyggjunnar ekki og yfirgripsmikil ríkisafskipti þurfa að koma til. Samfylkingin stóð sig raunar ekki mikið betur og neitaði lengi vel að horfast í augu við að kreppan snerist um annað og meira en hvaða gjaldmiðill væri notaður á Íslandi. Núna sjá vonandi allir að evran hefði ekki heldur bjargað íslensku bönkunum; slík ævintýramennska er ekki verðlaunuð í nokkru hagkerfi. Á hinn bóginn hafði Samfylkingin þó næga framtíðarsýn til að snúa við blaðinu og mynda velferðarstjórn með Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Það ríkisstjórnarsamstarf er langbesti kosturinn við núverandi aðstæður því að við komumst ekki út úr efnahagslægðinni nema að þjóðin standi saman og axli byrðarnar sameiginlega. Harkaleg andstaða sumra hópa við að dreifa byrðunum jafnt er það sem vekur athygli í yfirstandandi kosningabaráttu. Það ræðst auðvitað af því að veislan er búin að standa mjög lengi hjá vissum forréttindahópum og þeir sætta sig ekki við að henni sé lokið. Annar mikilvægur lærdómur af kreppunni er að hagsæld og velferð verður ekki reist nema á traustum grunni. Skyndigróði fjármálastofnana á undangengnum veltiárum virtist ótrúlegur og vakti aðdáun en virkaði því miður einnig eins og hemill á gagnrýna hugsun. Þessi gróði var reistur á sandi. Hið sama gildir því miður um stóriðjugróðann sem byggist á því að gefa helstu verðmæti Íslands, orkuauðlindir landsins, á útsöluverði. Ef við getum lært eitthvað af hruni talsýna undanfarinna ára er það mikilvægi þess að uppbygging sé á sjálfbærum grunni. Hagnaður á kostnað komandi kynslóða er ekki raunverulegur. Það kemur alltaf að skuldadögum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun
Það er hálfeinkennileg upplifun, eftir þjóðargjaldþrot og búsáhaldabyltingu, að nú standi yfir kosningabarátta á Íslandi og þó ekki síður hvað áróður stjórnmálaflokkanna hefur breyst ótrúlega lítið frá 2007. Lærdómurinn sem stjórnmálaforingjarnir og auglýsingastofur þeirra hafa dregið af hruni íslensks efnahagslífs virðist rista ótrúlega grunnt. Enn er öllu fögru lofað eins og verið sé að selja hreinsilöginn Cillit Bang og magn auglýsinga virðast vera í sömu hlutföllum og styrkirnir sem flokkar náðu að sópa til sín á lokadögum ársins 2006. Ég efast hins vegar um að nokkur láti þessar auglýsingar hafa áhrif á sig. Staðreynd málsins er sú að við þekkjum öll stjórnmálaflokkana og við vitum nákvæmlega hvað þeir standa fyrir. Það er einungis eitt kosningamál: Hvað hafa flokkarnir sagt og gert í efnahagsmálum 1991-2009. Ólíkt því sem auglýsingasmiðir virðast halda er fólk ekki fífl og því má fastlega búast við því að flokkarnir verði metnir að verðleikum eins og skoðanakannanir benda til; Sjálfstæðisflokkurinn mun tapa mestu fylgi og Vinstrihreyfingin - grænt framboð bæta mestu við sig. Og sú útkoma væri enda fullkomlega makleg. Flokkarnir sem hafa verið við stjórnvölinn eiga skilið hegningu fyrir frammistöðu sína við stjórn landsins undanfarna áratugi. En síðan þarf að huga að framtíðinni og hvernig við byggjum upp það sem stjórnarstefna undanfarinna ára hefur eyðilagt. Lærdómurinn af kreppu undanfarins vetrar er kannski fyrst og fremst sá að Ísland er ekki verndað umhverfi. Alþjóðlegar efnahagshræringar hafa áhrif á okkur og í alþjóðlegu efnahagslífi skiptir máli að hegða sér með ábyrgum hætti. Það var það sem brást meira eða minna á Íslandi; peningamennirnir risu ekki undir þeirri ábyrgð og þeim völdum sem þeim voru fengin. Stærstu fyrirtækjum Íslendinga var illa stjórnað og því fór sem fór; þó að enginn þurfi að efast um að mörg vel rekin fyrirtæki hafa verið dregin niður með þeim í fallinu. Hitt sem við getum lært af Icesave-málinu og nauðungarsamningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er að útlendingar munu ekki koma og bjarga okkur á stund neyðar. Þvert á móti ætlast þeir til að staðið sé við samninga í samræmi við alþjóðareglur. Það er svo annað mál hversu réttlátar slíkar reglur eru þar sem þær virðast eingöngu snúast um að verja hagsmuni fjármagnsins. En það kvörtuðu ekki margir á Íslandi yfir því að vitlaust væri gefið á dögum útrásarinnar. Núna höfum við kynnst því af eigin raun. Pólitísk hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er gjaldþrota eins og verk hans sjálfs í kreppunni hafa sýnt. Þetta varð lýðum ljóst mánuðina þegar íslenska ríkið yfirtók bankana og tekin voru upp gjaldeyrishöft. Þá kom í ljós að í kreppu duga úrræði frjálshyggjunnar ekki og yfirgripsmikil ríkisafskipti þurfa að koma til. Samfylkingin stóð sig raunar ekki mikið betur og neitaði lengi vel að horfast í augu við að kreppan snerist um annað og meira en hvaða gjaldmiðill væri notaður á Íslandi. Núna sjá vonandi allir að evran hefði ekki heldur bjargað íslensku bönkunum; slík ævintýramennska er ekki verðlaunuð í nokkru hagkerfi. Á hinn bóginn hafði Samfylkingin þó næga framtíðarsýn til að snúa við blaðinu og mynda velferðarstjórn með Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Það ríkisstjórnarsamstarf er langbesti kosturinn við núverandi aðstæður því að við komumst ekki út úr efnahagslægðinni nema að þjóðin standi saman og axli byrðarnar sameiginlega. Harkaleg andstaða sumra hópa við að dreifa byrðunum jafnt er það sem vekur athygli í yfirstandandi kosningabaráttu. Það ræðst auðvitað af því að veislan er búin að standa mjög lengi hjá vissum forréttindahópum og þeir sætta sig ekki við að henni sé lokið. Annar mikilvægur lærdómur af kreppunni er að hagsæld og velferð verður ekki reist nema á traustum grunni. Skyndigróði fjármálastofnana á undangengnum veltiárum virtist ótrúlegur og vakti aðdáun en virkaði því miður einnig eins og hemill á gagnrýna hugsun. Þessi gróði var reistur á sandi. Hið sama gildir því miður um stóriðjugróðann sem byggist á því að gefa helstu verðmæti Íslands, orkuauðlindir landsins, á útsöluverði. Ef við getum lært eitthvað af hruni talsýna undanfarinna ára er það mikilvægi þess að uppbygging sé á sjálfbærum grunni. Hagnaður á kostnað komandi kynslóða er ekki raunverulegur. Það kemur alltaf að skuldadögum.