Formúla 1

Albuquerque kátur að sjá við tveimur heimsmeisturum

Filipe Albuquerque lagði Sebastian Loeb í úrslitarimmu í kappakstursmóti meistaranna í Þýskalandi í dag.
Filipe Albuquerque lagði Sebastian Loeb í úrslitarimmu í kappakstursmóti meistaranna í Þýskalandi í dag. Mynd: Getty Images/Stuart Franklin
Portúgalinn Filipe Albuquerque var kampakátur með að vinna kappakstursmót meistaranna í Düsseldorf í dag. Hann lagði í Formúlu 1 heimsmeistarann Þjóðverjann Sebastian Vettel í undanúrslitum og Frakkann Sebastian Loeb, heimsmeistara í rallakstri í úrslitum. Albuquerque er ekki heimsþekktur ökumaður á borð við þá tvo sem hann sá við í mótinu á lokasprettinum.

Keppt var á malbikuðu mótssvæði sem hafði verið sett á knattspyrnuvöll í Dusseldorf og var ekið á tveimur brautum sem lágu að hluta til samhliða. Keppt var á ýmiskonar farartækjum.

"Þetta var minn dagur. Allt gekk vel og ég gerði engin mistök. Ég mætti svo góðum ökumönnum og varð að vinna Sebastian Vettel í tvígang og í úrslitum, maður lifandi, Sebastian (Loeb) var í stuði", sagði Albuquerque um mótið í dag.

"Ég gerði bara mitt og þegar ég vann fyrra skiptið í úrslitum var ég mjög glaður. Ég gerði mistök í næsta spretti og Loeb vann. Smá mistök geta verið dýrkeypt. En í úrslitarimminunni þá ók ég af mýkt og án mistaka. Ég trúi þessu ekkki að ég hafi komið í fyrsta skipti og unnið. Get ekki beðið um meira."

"Að vinna fræga kappa, þar á meðal Vettel í Þýskalandi, sem er nýbúinn að tryggja sér heimsmeistaratitil, það er frábært", sagði Albuquerque.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×