Endapunktur Ólafur Stephensen skrifar 10. desember 2010 09:09 Við nýja Icesave-samkomulagið sem náðist í London í fyrrinótt er aðeins eitt að gera; afgreiða það sem lög frá Alþingi eins fljótt og hægt er og ljúka þar með einkar óskemmtilegum kafla í Íslandssögunni. Nú þegar hefur lausn málsins tafizt í nærri heilt ár frá því að forseti Íslands synjaði lögum um fyrri samninginn staðfestingar í byrjun ársins.Hefði samkomulag, sambærilegt við það sem nú liggur fyrir, náðst í marzbyrjun, áður en gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin, hefði mátt fullyrða að synjun forsetans hefði verið íslenzkum hagsmunum stórlega til framdráttar. En biðin eftir niðurstöðu hefur líka verið dýr. Enginn veit í raun hvaða fjármunir og tækifæri hafa glatazt vegna áhrifanna á lánstraust Íslands og fjárfestingar í íslenzku atvinnulífi. Hins vegar liggur nú fyrir svart á hvítu að skaðinn fyrir skattgreiðendur af Icesave-ævintýri eigenda og stjórnenda Landsbankans er samkvæmt nýja samkomulaginu aðeins þriðjungur af því sem hann hefði verið samkvæmt gamla samningnum, að gefnum sömu forsendum um endurheimtur úr búi gamla Landsbankans.Að verulegum hluta skýrist sá sparnaður af nýjum vaxtaákvæðum, sem eru mesta afrek íslenzku samninganefndarinnar. Að hluta til lækkar kostnaðarmatið hins vegar vegna styrkingar krónunnar, sem út af fyrir sig hefur ekkert með samningsniðurstöðuna í London að gera.Ákvörðun um að afgreiða ekki þetta nýja Icesave-samkomulag með hraði væri jafnframt ákvörðun um að bjóða áfram bandamönnum og vinaríkjum Íslands birginn og gefa alþjóðlegum fjármálamarkaði langt nef. Hún væri ákvörðun um að kasta á glæ verulegum ávinningi sem samningamennirnir hafa náð fram fyrir Íslands hönd. Og líkast til yrði hún túlkuð sem svo að nú lægi endanlega fyrir að Ísland hygðist ekki greiða skuldir sínar.Hingað til hafa allir sem einhverja ábyrgð hafa tekið í Icesave-málinu; ríkisstjórn, stjórnarandstaða og forseti lýðveldisins, ítrekað þá afstöðu að ekki stæði til að greiða ekki innistæðutrygginguna, heldur stæði ágreiningurinn um kjörin. Þau hafa nú batnað stórlega og eru mun betri en vaxtakjör sem öðrum ríkjum bjóðast nú um stundir eins og Lee Buchheit, formaður íslenzku samninganefndarinnar, benti á í gær.Í samantekt samninganefndarinnar um niðurstöðuna frá London kemur fram að verði hún ekki endapunkturinn megi gera ráð fyrir að Ísland verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn. Sú málsmeðferð gæti tekið allt að tveimur árum og þarf ekki að hafa mörg orð um þann skaða sem á meðan væri unninn í íslenzku efnahagslífi. "Ef niðurstaða yrði Íslandi í óhag gætu vaknað spurningar um skaðabótaskyldu ríkisins og sérstök vandkvæði vegna framkvæmdar EES-samningsins í framhaldinu," bætir samninganefndin við.Þetta er rétt mat. Það er fræðilegur möguleiki að betri niðurstaða næðist fyrir dómi, en hvort það gerist vitum við ekki. Hins vegar vitum við að frekari töf á málinu hefði enn meira tjón í för með sér. Með samningum hefur Ísland stjórn á útkomunni en fyrir dómi getur brugðið til beggja vona. Það er rétt og ábyrgt að setja endapunktinn hér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun
Við nýja Icesave-samkomulagið sem náðist í London í fyrrinótt er aðeins eitt að gera; afgreiða það sem lög frá Alþingi eins fljótt og hægt er og ljúka þar með einkar óskemmtilegum kafla í Íslandssögunni. Nú þegar hefur lausn málsins tafizt í nærri heilt ár frá því að forseti Íslands synjaði lögum um fyrri samninginn staðfestingar í byrjun ársins.Hefði samkomulag, sambærilegt við það sem nú liggur fyrir, náðst í marzbyrjun, áður en gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin, hefði mátt fullyrða að synjun forsetans hefði verið íslenzkum hagsmunum stórlega til framdráttar. En biðin eftir niðurstöðu hefur líka verið dýr. Enginn veit í raun hvaða fjármunir og tækifæri hafa glatazt vegna áhrifanna á lánstraust Íslands og fjárfestingar í íslenzku atvinnulífi. Hins vegar liggur nú fyrir svart á hvítu að skaðinn fyrir skattgreiðendur af Icesave-ævintýri eigenda og stjórnenda Landsbankans er samkvæmt nýja samkomulaginu aðeins þriðjungur af því sem hann hefði verið samkvæmt gamla samningnum, að gefnum sömu forsendum um endurheimtur úr búi gamla Landsbankans.Að verulegum hluta skýrist sá sparnaður af nýjum vaxtaákvæðum, sem eru mesta afrek íslenzku samninganefndarinnar. Að hluta til lækkar kostnaðarmatið hins vegar vegna styrkingar krónunnar, sem út af fyrir sig hefur ekkert með samningsniðurstöðuna í London að gera.Ákvörðun um að afgreiða ekki þetta nýja Icesave-samkomulag með hraði væri jafnframt ákvörðun um að bjóða áfram bandamönnum og vinaríkjum Íslands birginn og gefa alþjóðlegum fjármálamarkaði langt nef. Hún væri ákvörðun um að kasta á glæ verulegum ávinningi sem samningamennirnir hafa náð fram fyrir Íslands hönd. Og líkast til yrði hún túlkuð sem svo að nú lægi endanlega fyrir að Ísland hygðist ekki greiða skuldir sínar.Hingað til hafa allir sem einhverja ábyrgð hafa tekið í Icesave-málinu; ríkisstjórn, stjórnarandstaða og forseti lýðveldisins, ítrekað þá afstöðu að ekki stæði til að greiða ekki innistæðutrygginguna, heldur stæði ágreiningurinn um kjörin. Þau hafa nú batnað stórlega og eru mun betri en vaxtakjör sem öðrum ríkjum bjóðast nú um stundir eins og Lee Buchheit, formaður íslenzku samninganefndarinnar, benti á í gær.Í samantekt samninganefndarinnar um niðurstöðuna frá London kemur fram að verði hún ekki endapunkturinn megi gera ráð fyrir að Ísland verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn. Sú málsmeðferð gæti tekið allt að tveimur árum og þarf ekki að hafa mörg orð um þann skaða sem á meðan væri unninn í íslenzku efnahagslífi. "Ef niðurstaða yrði Íslandi í óhag gætu vaknað spurningar um skaðabótaskyldu ríkisins og sérstök vandkvæði vegna framkvæmdar EES-samningsins í framhaldinu," bætir samninganefndin við.Þetta er rétt mat. Það er fræðilegur möguleiki að betri niðurstaða næðist fyrir dómi, en hvort það gerist vitum við ekki. Hins vegar vitum við að frekari töf á málinu hefði enn meira tjón í för með sér. Með samningum hefur Ísland stjórn á útkomunni en fyrir dómi getur brugðið til beggja vona. Það er rétt og ábyrgt að setja endapunktinn hér.