Formúla 1

Hamilton enn með titilvon í brjósti

Lewis Hamilton er í þriðja sæti í stigamótinu, en var efstur um tíma.
Lewis Hamilton er í þriðja sæti í stigamótinu, en var efstur um tíma. Mynd: Getty Images

Bretinn Lewis Hamilton hjá McLaren er ekki búinn að gefa upp vonina um Formúlu 1 meistaratitil á þessu ári, þó hann hafi verið svekktur að falla úr leik í öðru mótinu í röð á sunnudaginn í Singapúr.

"Ég var vissulega svekktur á sunnudagskvöld. Það er alltaf erfitt að sætta sig við svona upplifun. Það tekur tíma", sagði Hamilton í frétt á autosport.com þar sem vitnað er í heimasíðu kappans. Hamilton lenti í samstuði við Mark Webber og féll úr leik og tapaði dýrmætum stigum í stigakeppni ökumanna, þar sem fimm kappar berjast um titilinn.

"Ég hugsa ekki um orðinn hlut, eða skoða það að ég féll úr leik á Spáni og Ungverjalandi og svo í síðustu tveimur mótum. Ég horfi til næstu fjögurra móta, en ég hef ekki unnið sigur á þessum brautum. Ég verð því enn einbeittari en ella."

Hamilton er í þriðja sæti í stigamótinu og 20 stigum á eftir Webber sem er í forystu.

"Ég er einum sigri frá toppnum, en stigamunurinn virðist meiri en hann er á blaði. Miðað við gamla stigakerfið eru þetta 8 stig og það er ekkert miðað við að fjórum mótum er ólokið", sagði Hamilton.

Hamilton sagðist hafa verið óheppinn í tveimur síðustu mótum og ekki síst í Singapúr þar sem Webber ók á hann að hans sögn og sprengdi dekk. Hamilton taldi sig hafa verið í aksturslínunni og hafa verið kominn hálfa bíllengd framúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×