Þjóðaratkvæði um óskýra kosti Ólafur Þ. Stephensen skrifar 5. mars 2010 06:15 Enginn vafi leikur lengur á að Íslendingar ganga á morgun til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin. Undanfarin ár hefur því sjónarmiði vaxið mjög fylgi, að ástæða sé til að nota beint og milliliðalaust lýðræði í auknum mæli á Íslandi. Þjóðin ætti að fagna því að vera spurð álits á mikilvægu máli, en líklega þykir mörgum dapurlegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í sögu lýðveldisins skuli vera haldin á jafneinkennilegum forsendum og raun ber vitni. Í fyrsta lagi var ákvörðun forseta Íslands um að vísa Icesave-lögunum til þjóðarinnar stjórnskipulega hæpin. Það er afar ólíklegt að höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlazt til þess að í valdi eins manns lægi að taka hvað eftir annað fram fyrir hendurnar á Alþingi og vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Engar almennar reglur hafa enn verið settar um hvernig almenningur geti krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvers konar mál eigi að fara í dóm þjóðarinnar. Í öðru lagi uppfyllir þjóðaratkvæðagreiðslan á morgun ekki þau sjálfsögðu skilyrði að þjóðin standi frammi fyrir skýrum kostum, sem eiga sér stoð í raunveruleikanum. Fáum dettur væntanlega í hug að segja já og samþykkja Icesave-lögin, því að fyrir liggur að viðsemjendur Íslendinga eru reiðubúnir að gera nýjan samning, sem er hagstæðari en sá sem átti að staðfesta. Nei þýðir ekki annað en það að fólk ætlar ekki að samþykkja samning, sem er hvort sem er ekki lengur á borðinu. Viðsemjendurnir gera varla ráð fyrir öðru lengur en að meirihluti þjóðarinnar segi nei, sérstaklega þegar þeir hafa sjálfir lagt fram betra tilboð. Það er útbreiddur misskilningur, bæði innan lands og utan, að með því að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykki Íslendingar að borga ekki Icesave-skuldbindingarnar. Samninganefnd, sem nýtur stuðnings allra flokka, hefur þvert á móti verið í viðræðum undanfarna daga um að Ísland greiði innlánstryggingarnar en njóti betri kjara en samkvæmt fyrri samningi. Þegar þjóðin hefur sagt nei á laugardaginn, liggur áfram á að leysa úr Icesave-deilunni. Biðin eftir niðurstöðu er þegar orðin Íslandi gífurlega dýr. Erlendir fjárfestar og lánveitendur halda að sér höndum. Efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem átti að mýkja höggið af bankahruninu, hefur frestazt æ ofan í æ, sama á við um lánin frá Norðurlöndunum. Eins og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor bendir á í Fréttablaðinu í gær verður önnur efnahagsáætlun að koma til, gangi áætlun AGS ekki eftir. Þá gæti þurft að grípa til enn meiri lífskjaraskerðingar með gengisfellingu, skattahækkunum og niðurskurði ríkisútgjalda. Að enn hafi ekki samizt um Icesave er ekki fyrst og fremst áhyggjuefni vegna þess að við þurfum að ganga til tilgangslítillar þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er áhyggjuefni vegna þess að allur frestur á málinu stendur endurreisn efnahagslífsins fyrir þrifum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun Munu bara allir fá dánaraðstoð? Bjarni Jónsson Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Hver tilheyrir hverjum? Kristín Davíðsdóttir Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun
Enginn vafi leikur lengur á að Íslendingar ganga á morgun til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin. Undanfarin ár hefur því sjónarmiði vaxið mjög fylgi, að ástæða sé til að nota beint og milliliðalaust lýðræði í auknum mæli á Íslandi. Þjóðin ætti að fagna því að vera spurð álits á mikilvægu máli, en líklega þykir mörgum dapurlegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í sögu lýðveldisins skuli vera haldin á jafneinkennilegum forsendum og raun ber vitni. Í fyrsta lagi var ákvörðun forseta Íslands um að vísa Icesave-lögunum til þjóðarinnar stjórnskipulega hæpin. Það er afar ólíklegt að höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlazt til þess að í valdi eins manns lægi að taka hvað eftir annað fram fyrir hendurnar á Alþingi og vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Engar almennar reglur hafa enn verið settar um hvernig almenningur geti krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvers konar mál eigi að fara í dóm þjóðarinnar. Í öðru lagi uppfyllir þjóðaratkvæðagreiðslan á morgun ekki þau sjálfsögðu skilyrði að þjóðin standi frammi fyrir skýrum kostum, sem eiga sér stoð í raunveruleikanum. Fáum dettur væntanlega í hug að segja já og samþykkja Icesave-lögin, því að fyrir liggur að viðsemjendur Íslendinga eru reiðubúnir að gera nýjan samning, sem er hagstæðari en sá sem átti að staðfesta. Nei þýðir ekki annað en það að fólk ætlar ekki að samþykkja samning, sem er hvort sem er ekki lengur á borðinu. Viðsemjendurnir gera varla ráð fyrir öðru lengur en að meirihluti þjóðarinnar segi nei, sérstaklega þegar þeir hafa sjálfir lagt fram betra tilboð. Það er útbreiddur misskilningur, bæði innan lands og utan, að með því að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykki Íslendingar að borga ekki Icesave-skuldbindingarnar. Samninganefnd, sem nýtur stuðnings allra flokka, hefur þvert á móti verið í viðræðum undanfarna daga um að Ísland greiði innlánstryggingarnar en njóti betri kjara en samkvæmt fyrri samningi. Þegar þjóðin hefur sagt nei á laugardaginn, liggur áfram á að leysa úr Icesave-deilunni. Biðin eftir niðurstöðu er þegar orðin Íslandi gífurlega dýr. Erlendir fjárfestar og lánveitendur halda að sér höndum. Efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem átti að mýkja höggið af bankahruninu, hefur frestazt æ ofan í æ, sama á við um lánin frá Norðurlöndunum. Eins og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor bendir á í Fréttablaðinu í gær verður önnur efnahagsáætlun að koma til, gangi áætlun AGS ekki eftir. Þá gæti þurft að grípa til enn meiri lífskjaraskerðingar með gengisfellingu, skattahækkunum og niðurskurði ríkisútgjalda. Að enn hafi ekki samizt um Icesave er ekki fyrst og fremst áhyggjuefni vegna þess að við þurfum að ganga til tilgangslítillar þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er áhyggjuefni vegna þess að allur frestur á málinu stendur endurreisn efnahagslífsins fyrir þrifum.