Hins vegar er álit framkvæmdastjórnarinnar um landbúnað og sjávarútveg umdeilt - og var ekki við öðru að búast.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, sagði á búnaðarþingi í gær að þar væri engar vísbendingar að finna um undanþágur fyrir Ísland. Bændasamtökin íhuga að draga sig út úr samningahópum í aðildarviðræðunum, sem senn fara í hönd.
Talsmenn sjávarútvegsins hafa sömuleiðis orðað það svo að álit framkvæmdastjórnarinnar sé "staðfesting" á því að Ísland muni ekki geta fengið viðunandi samning um sjávarútveg. Framkvæmdastjórnin leggur áherzlu á að Ísland verði að lúta æðsta valdi ESB í sjávarútvegsmálum, samþykki reglur sambandsins um jafnan aðgang að fiskimiðum og falli frá banni við fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi.
Þeir sem vilja jafnvel hætta við umsóknina nú þegar, á grundvelli álits framkvæmdastjórnarinnar, misskilja hins vegar ganginn í aðildarviðræðum. Framkvæmdastjórnin hefur það hlutverk að standa vörð um sáttmála ESB. Ekkert af því, sem hún setur fram í skýrslu sinni, kemur á óvart.
Samningaviðræðurnar, sem framundan eru, snúast um það að hversu miklu leyti Ísland getur fengið fram breytingar á afstöðu Evrópusambandsins í mikilvægum málaflokkum. Hvort hægt sé að fá fram einhverjar undanþágur eða aðlögun eða vinna að því að breyta reglum sambandsins, þannig að þær henti Íslandi betur. Dæmin sanna að ESB hefur ævinlega verið reiðubúið að koma til móts við væntanleg aðildarríki á þeim sviðum, sem varða þeirra mikilvægustu þjóðarhagsmuni. En slík tilslökun fæst yfirleitt ekki fyrr en á lokaspretti viðræðna.
Nú eiga jafnt stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök að snúa bökum saman og vinna að því að Ísland fái sem beztan samning. Þjóðin mun svo segja sitt álit - að samningaviðræðum loknum.