Enski boltinn

Liverpool er að hluta í eigu LeBron James

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
LeBron James, einn besti leikmaður NBA deildarinnar, hefur keypt hlut í enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool
LeBron James, einn besti leikmaður NBA deildarinnar, hefur keypt hlut í enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool AP
LeBron James, einn besti leikmaður NBA deildarinnar, hefur keypt hlut í enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool. James, sem leikur með Miami Heat, kaupir hlutinn í hinu sögufræga fótboltaliði í gegnum nokkuð flókna viðskiptafléttu þar sem John Henry aðaleigandi Liverpool er samstarfsaðili LeBron James. Það er því ljóst að stuðningsmenn enska liðsins sem búsettir eru í Cleveland gætu átt í vandræðum með að styðja við liðið eftir fregnir kvöldsins.

Henry á einnig bandaríska hafnarboltaliðið Boston Red Sox en samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla hefur James ekki eignast hlut í því sögufræga félagi.

„Um leið og ég steig fæti inná keppnisvöllinn sem NBA leikmaður þá byrjaði ég líka að taka þátt í viðskiptalífinu. Þetta var gott tækifæri fyrir mig á því sviði," sagði James vð Wall Street Journal í dag. David Stern framkvæmdastjóri NBA deildarinnar fagnar ákvörðun leikmannsins að láta til sín taka í viðskiptum með hið fornfræga lið á Englandi.

Í fréttatilkynningu segir m.a. að James sé afar stoltur og þakklátur að hafa fengið þetta tækifæri og hann getur ekki beðið eftir því að klæða sig í Liverpool búning og heimsækja Anfield – heimavöll Liverpool.

James, sem er 26 ára gamall, fær um 1,8 milljarð kr.í laun frá Miami Heat á ári og þar að auki er hann með auglýsingasamninga við þekkt vörumerki á borð við McDonald's, Nike og Coca-Cola. Talið er að hann fái um 4 milljarða í laun á ári fyrir þá samninga og aðra smærri.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×