Fastir pennar

Gleymd orð um gengisfellingar

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, sagði í Fréttablaðinu í gær að ummæli Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, um íslenzku krónuna hefðu staðið í vegi fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi. „Forsenda erlendrar fjárfestingar og tiltrúar á íslenska krónu er að menn telji að stjórnvöld muni forðast gengisfellingar í lengstu lög. Ef menn skilgreina kosti íslenskrar krónu einvörðungu þá að hægt sé að fella hana, felast í því skilaboð til útlendinga um að hún sé mjög óviss eign og best sé að eiga ekkert undir henni," sagði Árni Páll.

Við orðum Árna brást Steingrímur, eftirmaður hans í embætti, með því að segja að hann myndi ekki eftir „að hafa nokkru sinni rætt um mikilvægi þess að geta fellt gengið" eins og haft var eftir honum hér í blaðinu í gær.

Þetta er skrýtið minnisleysi. Steingrímur hefur margoft látið slík orð falla. Til dæmis á landsfundi Vinstri grænna í október: „[Þ]að eru okkar eigin efnahagslegu stýritæki, þar með talið eiginn gjaldmiðill, sem eru að duga okkur til að komast út út kreppunni. Og hvers vegna skyldu þau þá ekki geta dugað vel áfram? […] Hin mikla gengislækkun var ekki án fórna en það voru engar innistæður fyrir hágengi rugltímans og ekki skrýtið og engin ráðgáta að krónan lenti í frjálsu falli eftir hrun og efnahagsóstjórn um árabil."

Steingrímur hefur talað enn skýrar í viðtölum við erlenda fjölmiðla, sem erlendir fjárfestar eru líklegir til að fylgjast betur með en ræðum á landsfundum VG (þótt margir þeirra fylgist raunar ágætlega með fréttum á Íslandi). Í Wall Street Journal í maí í fyrra ítrekaði fjármálaráðherrann þáverandi að Ísland væri betur sett með krónuna, vegna þess að hún gerði íslenzkar afurðir ódýrari erlendis og greiddi þannig fyrir efnahagsbata. „Gengisfelling er aldrei án kostnaðar en hún hefur klárlega skapað útflutningi okkar gott samkeppnisforskot og styður raunhagkerfið í gegnum kreppuna," sagði Steingrímur þar. Nokkurn veginn sömu ummæli viðhafði hann í viðtali við BBC í október, þar sem hann sagði að fall krónunnar hefði búið til „myndarlegt samkeppnisforskot".

Það er skrýtið að Steingrímur segist ekki muna eftir þessu, því að möguleikinn á gengislækkun er í raun einu rökin fyrir því að halda í krónuna. „Sveigjanlegur" gjaldmiðill sparar stjórnvöldum aga við hagstjórnina og gerir kleift að færa peninga frá launþegum til útflutningsatvinnuveganna eftir þörfum með því að færa þeim síðarnefndu hærri tekjur en lækka raunlaun og kaupmátt þeirra fyrrnefndu í gegnum hækkun á innfluttum vörum. Veigamikill hluti af fórnunum, sem Steingrímur J. kýs að fara ekki mjög nákvæmlega út í, felst svo í hækkun skulda fólks og fyrirtækja, hvort sem þær eru í erlendri mynt eða verðtryggðum íslenzkum krónum.

Það er gersamlega ómögulegt að sannfæra Íslendinga um að halda eigi í krónuna af því að hún sé svo sveigjanleg og telja um leið útlendum fjárfestum trú um að hún sé stöðugur og trúverðugur gjaldmiðill og fallin til að fjárfesta í. Það væri ljómandi gott að stjórnmálamenn áttuðu sig á þeirri mótsögn í eigin málflutningi.






×