Fastir pennar

Jöfnuður og jákvæðir hvatar

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Athyglisverð úttekt Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands á áhrifum kreppunnar á afkomu einstakra tekjuhópa sýnir að stjórnvöld hafa náð því markmiði sínu að verja lífskjör þeirra tekjulægstu. Á árunum 2008 til 2010 rýrnaði kaupmáttur fjölskyldutekna Íslendinga að meðaltali um 20%. Þau tíu prósent þjóðarinnar sem hafa lægstar tekjur urðu hins vegar fyrir 9% kjaraskerðingu og hópar um miðbik tekjustigans um 14%. Tíundi hlutinn með hæstu tekjurnar hefur hins vegar orðið fyrir 38% kjararýrnun.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þakkar stjórnvöldum þessa niðurstöðu í grein í Fréttablaðinu í gær og fyrir liggur að aðgerðir þeirra hafa haft veruleg áhrif á hana. Tekið var upp þrepaskipt skattkerfi, þar sem skattbyrði þeirra lægst launuðu var lækkuð, en skattar hækka verulega með hækkandi tekjum. Þá hafa ýmiss konar bætur almannatrygginga verið hækkaðar, eins og fram kemur í skýrslunni.

Án efa voru þetta réttlætanlegar aðgerðir til að milda höggið af hruni krónunnar og öðrum kjaraskerðingum á þá tekjulægstu. Það er líka rétt, sem bent er á í skýrslu Þjóðmálastofnunar, að ójöfnuður í íslenzku samfélagi á árunum fyrir hrun var orðinn óheilbrigður.

Til lengri tíma litið felast hins vegar ýmsar hættur í því að beita skattkerfinu til að jafna tekjur fólks. Ein er sú að samspil skatt- og bótakerfis hafi í för með sér að til dæmis ungt fjölskyldufólk lendi í gildru jaðarskatta; það er, að þegar tekjurnar aukast um tiltölulega fáar krónur skríði fólk yfir mörk, sem hafa í för með sér að skattar hækka og bætur lækka, þannig að öll kjarabótin hverfur og jafnvel gott betur. Það er raunar annað úttektarefni að skoða áhrif breytinga á bóta- og skattkerfinu að þessu leyti.

Í öðru lagi dregur þrepaskipt skattkerfi almennt úr jákvæðum hvata fólks til að leggja harðar að sér til að hækka tekjur sínar. Eigin dugnaður á að ráða mestu um hversu gott fólk hefur það, fremur en að það sé ákveðið af þeim sem hanna skattkerfið. Lágtekjumaðurinn þarf að hafa hvata til að verða millitekjumaður og sá síðarnefndi til að verða hátekjumaður. Þær breytingar sem hafa verið gerðar hér á landi draga klárlega úr þessum hvata.

Í þriðja lagi vinnur skattpíning millistéttar- og hátekjufólks gegn þeirri viðleitni, sem forsætisráðherra nefndi sjálf í grein sinni, að efla skapandi greinar og auka erlenda fjárfestingu. Hátæknifyrirtæki berjast um hæft, vel launað starfsfólk við sambærileg fyrirtæki erlendis. Alþjóðleg fyrirtæki sem íhuga að fjárfesta hér horfa ekki eingöngu til þess skattaumhverfis sem þeim sjálfum er búið, heldur líka hvernig skattlagningu starfsfólksins er háttað. Telji fjárfestar og frumkvöðlar að skattaumhverfið sé fjandsamlegt, eru þeir líklegir til að staðsetja fyrirtækin annars staðar en á Íslandi.

Stjórnvöld tala mikið um gildi þess að beita skattkerfinu til tekjujöfnunar. Þau ættu líka að tala um hvernig auka megi möguleika og hvatningu íslenzkra launþega til að afla sér meiri tekna, sem til lengri tíma eykur auðvitað tekjur ríkissjóðs.






×