Fastir pennar

Ríkisbónus

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Í desember 2009 var samið um uppgjör milli gamla og nýja Landsbankans. Í því fólst meðal annars að tvö gömul lánasöfn voru færð yfir í þann nýja á mjög, mjög lágu verði. Ef tækist að innheimta meira af lánunum myndu 85 prósent þess fjár renna til gamla bankans, sem í staðinn myndi láta eftir 18,7 prósenta eignarhlut í þeim nýja.

Frá því að samkomulagið var gert hafa innheimst 82,4 milljarðar ofan á málamyndaverðið sem sett var á eignirnar. Virði hlutar gamla bankans er um 66,8 milljarðar króna. Nái virðið 92 milljörðum, sem gamli bankinn hefur opinberlega lýst yfir að muni nást, skilar hann öllum eignarhlut sínum í þeim nýja.

Íslenska ríkið fær hann þó ekki allan. Það var nefnilega samið um að allt að tveggja prósenta hlutur rynni í stofn fyrir kaupaukakerfi starfsmanna nýja bankans. Hlutfallsleg stærð hlutar þeirra færi eftir því hversu mikið myndi innheimtast. Þannig myndar hver aukakróna sem innheimtist viðbótareign í bónuspotti sem skipt verður á milli starfsmannanna.

Landsbankinn segir bónuspottinn hafa verið búinn til „að frumkvæði kröfuhafa". Nú er það svo að kröfuhafar hafa ekki ráðið yfir þrotabúi Landsbankans, heldur skilanefnd skipuð af Fjármálaeftirlitinu sem síðan fékk héraðsdóm til að skipa slitastjórn. Það eru því þessir aðilar, íslenskir fulltrúar kröfuhafa, sem lögðu til samkomulagið. Gagnaðilinn var fjármálaráðuneytið, sem þá var stýrt af Steingrími J. Sigfússyni.

Steingrímur sagði í samtali við Fréttablaðið nýverið að búið væri að taka fyrir að stjórnendum bankanna verði greiddir risabónusar tengdir skammtímagróða svo þeir reyni ekki að skrúfa afkomuna upp milli ársfjórðunga vegna bónusa.

Vissulega er rétt að búið er að takmarka umfang bónusa, en það er ekki búið að koma í veg fyrir að bónuskerfi hvetji beinlínis til þess að skammtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi við innheimtu. Kaupaukakerfi Landsbankans er nefnilega nákvæmlega þannig.

Kerfið snýst ekki um arðsemi eiginfjár, ekki um að lána út peninga, í raun ekkert um hefðbundna bankastarfsemi. Peningarnir sem mynda stofn kerfisins eru afleiðing hrunsins, tilkomnir vegna þess að gamlar eignir voru færðar úr þrotabúinu í nýja bankann á nánast engu verði en síðan rukkaðar að fullu inn. Sá hvati sem drífur kerfið áfram er fjarri því að vera ólíkur þeim sem rannsóknarnefnd Alþingis tilgreindi að hefðu verið við lýði innan föllnu bankanna og orsakaði áhættuhegðun. Munurinn nú er sá að ekki er hægt að rökstyðja tilvist bónuskerfis með því að íslenskt bankafólk sé svo eftirsóknarvert á alþjóðavettvangi. Því trúir enginn í dag.

Miðað við eiginfjárstöðu Landsbankans í lok mars þá er innra virði mögulegs hlutar starfsmanna hans 4,2 milljarðar króna. Miðað við þróun hagnaðartalna hjá nýja Landsbankanum frá stofnun þá mun hann ugglaust verða enn meira virði. Þennan eignarhlut ákvað fjármálaráðuneytið undir stjórn Vinstri grænna að gefa og dreifa í gegnum kaupaukafyrirkomulag sem líkast til enginn stjórnmálaflokkur hefur gagnrýnt meira. Þetta á sér stað á sama tíma og höft gera allan bankarekstur á Íslandi óeðlilegan og ríkisábyrgð er á öllum innstæðum. Ljóst er að sama peningagjöf býðst ekki öðrum ríkisstarfsmönnum fyrir að vinna vinnuna sína.






×