Enski boltinn

AC Milan fær Mario Balotelli ekki á láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport segir frá því í morgun að Manchester City hafi hafnað beiðni AC Milan um að fá ítalska framherjann Mario Balotelli á láni fram á vor.

AC Milan hefur ennfremur greint forráðamönnum ensku meistarana frá því að félagið sé ekki tilbúið að borga meira en 25 milljónir evra fyrir leikmanninn.

Mario Balotelli lék áður með Internazionale á Ítalíu en var stuðningsmaður AC Milan þegar hann var yngri og hefur alltaf verið reglulega orðaður við AC í enskum og ítölskum fjölmiðlum.

Mario Balotelli sló í gegn á Evrópumótinu síðasta sumar en það hefur lítið gengið upp hjá honum í vetur. Balotelli hefur verið mikið á bekknum eða upp í stúku og hefur aðeins skorað 1 mark í 11 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur sýnt viðleysu og vandræðagangi Mario Balotelli afar mikinn skilning og ætlar greinilega að bíða eftir því að Balotelli fullorðnist og fari að nýta einstaka hæfileika sína til fullnustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×