Enski boltinn

Áfall fyrir Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Fletcher.
Steven Fletcher. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sunderland gaf það út í dag að framherjinn Steven Fletcher og miðjumaðurinn Lee Cattermole verði ekki meira með liðinu á þessu tímabili vegna meiðsla. Þetta er mikið áfall fyrir lið Sunderland sem er eins og er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Lee Cattermole fór í uppskurð á hné fyrr í dag og Steven Fletcher meiddist illa á ökkla í leik með skoska landsliðinu.

Steven Fletcher er langmarkahæsti leikmaður Sunderland í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en hann hefur skorað 11 mörk í 28 leikjum. Craig Gardner er næstmarkahæstur með sex mörk.

Lee Cattermole er venjulega fyrirliði liðsins en hefur aðeins náð að spila 10 leiki á þessu tímabili vegna meiðsla.

Sunderland er aðeins fjórum stigum frá fallsæti þegar átta umferðir eru eftir af deildinni. Liðið mætir Norwich City á heimavelli um helgina.

Nú reynir á norður írska stjórann Martin O'Neill að fylla í skörð þeirra Steven Fletcher og Lee Cattermole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×