Bílar

Toyota sparar með fækkun íhluta

Finnur Thorlacius skrifar
Toyota varði 1.160 milljörðum króna í þróun nýrra bíla á síðasta ári.
Toyota varði 1.160 milljörðum króna í þróun nýrra bíla á síðasta ári.
Hjá Toyota eru til 50 mismunandi gerðir af loftpúðum sem verja eiga hné farþega. Er það dæmi um hve margar gerðir íhluta eru hjá fyrirtækinu, en nú ætlar Toyota að skera hressilega niður í íhlutafjöldanum. Með því ætlar Toyota bæði að spara tíma og fé, ekki síst við þróun nýrra bíla. Kostnaður á að lækka um allt að 30% fyrir vikið.

Toyota varði á síðasta ári 9,6 milljörðum dollara, eða 1.160 milljörðum króna í þróun nýrra bíla og það finnst sumum hjá japanska framleiðandanum of mikið. Dæmið um fjölda loftpúðanna á sér hliðstæðu í flestum öðrum bílapörtum. Vatnskassar eru til að mynda af 100 gerðum, en verða skornir niður í 21 gerð og lofpúðagerðirnar verða brátt orðnar aðeins 10. Átján mismunandi strokkstærðir eru í vélum Toyota bíla en verða brátt aðeins 6.

Þessi þróun hjá Toyota mun orsaka fækkun margra af smærri birgjum þess og hafa þeir eðlilega miklar áhyggjur af því. Því er þessi þróun vatn á myllu stærri framleiðendanna sem munu þurfa að framleiða meira magn af færri gerðum íhluta.






×