Er íslenska útlenska? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 4. mars 2013 06:00 Á netinu má sjá erindi Þorvaldar Þorsteinssonar – þess snilldarmanns – á málþingi BÍL um skapandi greinar frá sjónarhóli listamanna þar sem hann deildi á tilhneigingu til að beita akademískum vinnubrögðum í listsköpun. Hann talaði um "gervireynd" í því sambandi. Í erindinu vék hann stuttlega að íslenskunni og aðferðum okkar við að kenna krökkum hana. Hann sagði eitthvað á þá leið að krakkarnir hefðu í raun ámóta færni í að nota íslensku og konsertpíanisti hefur á hljóðfæri sitt, en kennsluháttunum mætti líkja við það að konsertpíanistinn einblíndi í þjálfun sinni á feilnóturnar – krakkarnir skilgreina málnotkun sína út frá feilnótunum – og áherslan á greiningu og lýsingu málsins fremur en beitingu þess jafngilti því að láta konsertpíanistann einbeita sér að því að taka flygilinn í sundur og setja hann aftur saman í réttri röð.Málótti og málþótti Þetta er frábær líking hjá Þorvaldi. Þegar einblínt er á að kenna málið út frá villunum en ekki möguleikunum sem í því felast gleymist að krakkarnir kunna málið þegar þeir koma í skólann. Stundum hefur hvarflað að manni að markmið íslenskukennslu í skólum sé að sýna börnum fram á að íslenska sé útlenska. Og ekki bara útlenska heldur ákaflega erfið útlenska sem þau muni aldrei ná tökum á. Er þetta atviksorð? Er þetta óákveðið fornafn (hvur fjárinn sem það nú annars er)? Kenniliður? Sagnliður? Veistu þetta ekki? Þá kanntu ekki íslensku. Íslenska er nefnilega útlenska. Stundum hittir maður fólk með ómælda frásagnargáfu sem getur haldið áheyrendum föngnum með snilldarlega uppbyggðum sögum en þegar maður spyr hvort þetta fólk hafi ekki löngun til skrifta er eins og tenginguna vanti milli munnlegrar málnotkunar og skriflegrar; það segist ekki kunna neitt; kannski af því að það man ekki hvenær maður skrifar "geysa" og hvenær "geisa". Þessu fólki hefur verið talin trú um að íslenska sé útlenska. Erfitt mál sem það muni aldrei geta lært. Og það fyllist málótta. Aðrir fyllast málþótta. Til er fólk sem amast við málfari samborgara sinna, ekki síst þeirra sem hafa atvinnu af því að nota tungumálið – tala í útvarp eða skrifa í blöð. Til dæmis les maður iðulega aðfinnslur um þau Andra Frey og Gunnu Dís sem eru á morgnana á Rás tvö, fólk sem er einmitt sérstaklega gaman að hlusta á af því að þau eiga svo auðvelt með að tjá sig, hafa skemmtilegt tungutak með sterku svipmóti. Þessi málgæslustörf eru af góðum hug sprottin – umhyggju fyrir varnarlausum menningarverðmætum í spilltum heimi. En hún er seig sú gamla og ekki víst að hún þurfi á slíkri umhyggju að halda. Við erum ekki stödd á safni þar sem einungis má fara hljóðlega um sali og skoða viðkvæmu orðin, sem hreinsuð eru reglulega af fólki með hvíta hanska. Íslenskan brotnar ekki þó að einhver segi "Ég vill". Hún er heldur ekki latína, endanlegt, lokað mengi. Hún er ekki viðkvæmt blóm að berjast fyrir lífi sínu í menningarnæðingnum: hún er einmitt eins og íslenskur heiðagróður: kraftmikil og ódrepandi. Hún er ekki hrum og veikbyggð heldur sterk og frjósöm. Hún er "orða frjósöm móðir" eins og Bólu-Hjálmar kvað. Nýjasta dönskuslettan vitnar um þetta: "Haltu kjafti, hvað var gaman í gær," segja krakkarnir upp á dönsku, en danskurinn lætur þennan frasa duga: hér eru daglega búnir til nýir: "Farðu í sturtu, hvað mig langar í pönnuköku", "farðu á ball í Garðabæ hvað Snjólfur er vitlaus", "skafl beygjattu skalli, hvað þetta er ljót peysa". Orða frjósöm móðir. Það er svo gaman að bulla á íslensku. Hún er svo opin og frjósöm og til í tuskið. Hún er svo blæbrigðarík, svo sveigjanleg og teygjanleg – og beygjanleg."Ýmsir, báðir, sérhver?" Málþótti eins er málótti annars. Og málflótti þess þriðja. Í skólakerfinu grúfa blessuð börnin sig yfir setningafræðina – taka flygilinn í sundur – og geta romsað upp úr sér óákveðnum fornöfnum – annar, fáeinir, enginn, neinn, / vömb, keppur, laki, vinstur – en þau læra ekki að tjá sig; tala, skrifa, skálda, bulla; móta hugsun í orð, nota þetta tungumál sem þau kunna. Það er eftirlátið Junior Chamber hreyfingunni að þjálfa ungt fólk í því að halda ræður, og virðist áskilið í þeirri þjálfun að hafa enga sannfæringu en þykjast hafa hana og eru gefin stig fyrir að baða út höndunum, hvessa augun, hækka og lækka róminn. Útkoman er gervimælska, ámóta spennandi og kjötlokur frá Borgarnesi. Fyrir vikið eru ræðustólar landsins þéttsetnir fólki sem baðar út höndunum og talar hálfkjökrandi um málefni sem því stendur í rauninni hjartanlega á sama um. Vandað málfar vitnar um vandaða hugsun; vont málfar sýnir vonda hugsun. Eitt einkenni góðærisins var mikil löngun til að tala ensku öllum stundum, kannski af því að íslenskan er svo gagnsæ að allt skilst sem maður segir. Hefði hrunið ekki komið er eins víst að útrásarvíkingarnir (sem nú bíða í ofvæni eftir kosningaúrslitum) hefðu haft sitt fram, búnir að taka skortstöðu á íslenskuna og enska orðið opinbert tungumál hér á landi. Og kannski er erfitt að rökstyðja hvers vegna við eigum að tala þetta skrýtna mál, sem enginn kann víst almennilega, nema nokkrir sérlundaðir prófarkalesarar – og það að málið sé skemmtilegt og dásamlegt og orða frjósöm móðir nær kannski skammt. En við hérna erum eina fólkið í heiminum sem talar þetta mál. Okkur er trúað fyrir því. Hættum við að tala íslensku deyr hún og veröldin verður einum hugsunarhættinum fátækari: enginn sem skilur Njálu, Laxness og Þórberg og ljóðin öll og allt hitt sem heilan heim margbrotinna og fínlega samofinna hugmynda þarf til að skynja að fullu: heilt tungumál. En við verðum líka að muna að íslenska er handa okkur; til þess að nota hana þurfum við ekki að þylja upp þessi fornöfn sem aldrei geta ákveðið sig. Hún er okkar mál. Íslenska er ekki útlenska. Hún er innlenska. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Á netinu má sjá erindi Þorvaldar Þorsteinssonar – þess snilldarmanns – á málþingi BÍL um skapandi greinar frá sjónarhóli listamanna þar sem hann deildi á tilhneigingu til að beita akademískum vinnubrögðum í listsköpun. Hann talaði um "gervireynd" í því sambandi. Í erindinu vék hann stuttlega að íslenskunni og aðferðum okkar við að kenna krökkum hana. Hann sagði eitthvað á þá leið að krakkarnir hefðu í raun ámóta færni í að nota íslensku og konsertpíanisti hefur á hljóðfæri sitt, en kennsluháttunum mætti líkja við það að konsertpíanistinn einblíndi í þjálfun sinni á feilnóturnar – krakkarnir skilgreina málnotkun sína út frá feilnótunum – og áherslan á greiningu og lýsingu málsins fremur en beitingu þess jafngilti því að láta konsertpíanistann einbeita sér að því að taka flygilinn í sundur og setja hann aftur saman í réttri röð.Málótti og málþótti Þetta er frábær líking hjá Þorvaldi. Þegar einblínt er á að kenna málið út frá villunum en ekki möguleikunum sem í því felast gleymist að krakkarnir kunna málið þegar þeir koma í skólann. Stundum hefur hvarflað að manni að markmið íslenskukennslu í skólum sé að sýna börnum fram á að íslenska sé útlenska. Og ekki bara útlenska heldur ákaflega erfið útlenska sem þau muni aldrei ná tökum á. Er þetta atviksorð? Er þetta óákveðið fornafn (hvur fjárinn sem það nú annars er)? Kenniliður? Sagnliður? Veistu þetta ekki? Þá kanntu ekki íslensku. Íslenska er nefnilega útlenska. Stundum hittir maður fólk með ómælda frásagnargáfu sem getur haldið áheyrendum föngnum með snilldarlega uppbyggðum sögum en þegar maður spyr hvort þetta fólk hafi ekki löngun til skrifta er eins og tenginguna vanti milli munnlegrar málnotkunar og skriflegrar; það segist ekki kunna neitt; kannski af því að það man ekki hvenær maður skrifar "geysa" og hvenær "geisa". Þessu fólki hefur verið talin trú um að íslenska sé útlenska. Erfitt mál sem það muni aldrei geta lært. Og það fyllist málótta. Aðrir fyllast málþótta. Til er fólk sem amast við málfari samborgara sinna, ekki síst þeirra sem hafa atvinnu af því að nota tungumálið – tala í útvarp eða skrifa í blöð. Til dæmis les maður iðulega aðfinnslur um þau Andra Frey og Gunnu Dís sem eru á morgnana á Rás tvö, fólk sem er einmitt sérstaklega gaman að hlusta á af því að þau eiga svo auðvelt með að tjá sig, hafa skemmtilegt tungutak með sterku svipmóti. Þessi málgæslustörf eru af góðum hug sprottin – umhyggju fyrir varnarlausum menningarverðmætum í spilltum heimi. En hún er seig sú gamla og ekki víst að hún þurfi á slíkri umhyggju að halda. Við erum ekki stödd á safni þar sem einungis má fara hljóðlega um sali og skoða viðkvæmu orðin, sem hreinsuð eru reglulega af fólki með hvíta hanska. Íslenskan brotnar ekki þó að einhver segi "Ég vill". Hún er heldur ekki latína, endanlegt, lokað mengi. Hún er ekki viðkvæmt blóm að berjast fyrir lífi sínu í menningarnæðingnum: hún er einmitt eins og íslenskur heiðagróður: kraftmikil og ódrepandi. Hún er ekki hrum og veikbyggð heldur sterk og frjósöm. Hún er "orða frjósöm móðir" eins og Bólu-Hjálmar kvað. Nýjasta dönskuslettan vitnar um þetta: "Haltu kjafti, hvað var gaman í gær," segja krakkarnir upp á dönsku, en danskurinn lætur þennan frasa duga: hér eru daglega búnir til nýir: "Farðu í sturtu, hvað mig langar í pönnuköku", "farðu á ball í Garðabæ hvað Snjólfur er vitlaus", "skafl beygjattu skalli, hvað þetta er ljót peysa". Orða frjósöm móðir. Það er svo gaman að bulla á íslensku. Hún er svo opin og frjósöm og til í tuskið. Hún er svo blæbrigðarík, svo sveigjanleg og teygjanleg – og beygjanleg."Ýmsir, báðir, sérhver?" Málþótti eins er málótti annars. Og málflótti þess þriðja. Í skólakerfinu grúfa blessuð börnin sig yfir setningafræðina – taka flygilinn í sundur – og geta romsað upp úr sér óákveðnum fornöfnum – annar, fáeinir, enginn, neinn, / vömb, keppur, laki, vinstur – en þau læra ekki að tjá sig; tala, skrifa, skálda, bulla; móta hugsun í orð, nota þetta tungumál sem þau kunna. Það er eftirlátið Junior Chamber hreyfingunni að þjálfa ungt fólk í því að halda ræður, og virðist áskilið í þeirri þjálfun að hafa enga sannfæringu en þykjast hafa hana og eru gefin stig fyrir að baða út höndunum, hvessa augun, hækka og lækka róminn. Útkoman er gervimælska, ámóta spennandi og kjötlokur frá Borgarnesi. Fyrir vikið eru ræðustólar landsins þéttsetnir fólki sem baðar út höndunum og talar hálfkjökrandi um málefni sem því stendur í rauninni hjartanlega á sama um. Vandað málfar vitnar um vandaða hugsun; vont málfar sýnir vonda hugsun. Eitt einkenni góðærisins var mikil löngun til að tala ensku öllum stundum, kannski af því að íslenskan er svo gagnsæ að allt skilst sem maður segir. Hefði hrunið ekki komið er eins víst að útrásarvíkingarnir (sem nú bíða í ofvæni eftir kosningaúrslitum) hefðu haft sitt fram, búnir að taka skortstöðu á íslenskuna og enska orðið opinbert tungumál hér á landi. Og kannski er erfitt að rökstyðja hvers vegna við eigum að tala þetta skrýtna mál, sem enginn kann víst almennilega, nema nokkrir sérlundaðir prófarkalesarar – og það að málið sé skemmtilegt og dásamlegt og orða frjósöm móðir nær kannski skammt. En við hérna erum eina fólkið í heiminum sem talar þetta mál. Okkur er trúað fyrir því. Hættum við að tala íslensku deyr hún og veröldin verður einum hugsunarhættinum fátækari: enginn sem skilur Njálu, Laxness og Þórberg og ljóðin öll og allt hitt sem heilan heim margbrotinna og fínlega samofinna hugmynda þarf til að skynja að fullu: heilt tungumál. En við verðum líka að muna að íslenska er handa okkur; til þess að nota hana þurfum við ekki að þylja upp þessi fornöfn sem aldrei geta ákveðið sig. Hún er okkar mál. Íslenska er ekki útlenska. Hún er innlenska.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun