Í hverju er manneskjan eiginlega? Friðrika Benónýsdóttir skrifar 30. júlí 2013 06:00 Druslugangan á laugardag var gleðilegt framtak og gott innlegg í umræðuna um það að varpa ábyrgðinni á nauðgunum þangað sem hún á heima; til nauðgaranna. Tilgangur göngunnar var að undirstrika það að klæðnaður kvenna getur aldrei afsakað það að þeim sé nauðgað, að konum sé frjálst að klæðast hverju sem þær lystir án þess að vera stimplaðar druslur sem séu „að bjóða upp á það“. Góður punktur sem seint verður undirstrikaður um of. Fórnarlömb nauðgana eru þó ekki einu konurnar sem dæmdar eru fyrir klæðnað sinn. Stór hluti af umfjöllun fjölmiðla um konur snýst nefnilega um klæðnað þeirra, útlit og líkamlegt form. Fyrirsagnir á borð við „Í hverju er manneskjan eiginlega?“, „Svakalega hefur hún grennst“, „Komin í fantaform eftir barnsburð“ og aðrar álíka tröllríða slúðurfréttum netmiðla, bæði hérlendra og erlendra, á hverjum einasta degi. Nú síðast var það Katrín hertogaynja af Cambridge sem setti Twitter og aðra netmiðla á annan endann með því að reyna ekki að fela á sér magann á myndunum sem voru teknar daginn eftir fæðingu sonarins. Svo nærri netverjum gengu þessi ósköp að tímaritið OK! birti forsíðuviðtal við einkaþjálfara hennar, sem fullvissaði heimsbyggðina um að Katrín væri í fantaformi og maginn yrði horfinn innan nokkurra vikna. Og heimsbyggðin andaði sjálfsagt léttar. Aðrir fjölmiðlar og kommentarar á netinu hrósuðu hertogaynjunni fyrir þann kjark að reyna ekki að fela á sér magann og miklar bollaleggingar um hvort það hefði verið með vilja gert eður ei áttu sér stað. Flestir hölluðust að því að svo hefði verið og gengu jafnvel svo langt að segja að Katrín hefði „brotið blað“ í fjölmiðlaframkomu fræga fólksins. Að hún væri „algjör hetja“. Það var og. Það er reyndar að bera í bakkafullan lækinn að gera umfjöllun fjölmiðla um frægar konur að umtalsefni eina ferðina enn, en að það þyki hetjuskapur hjá konu að leyfa heiminum að sjá að magi hennar sé ekki skroppinn saman daginn eftir fæðingu er svo veruleikafirrt að það vekur ótta. Hvernig í ósköpunum eiga dætur okkar að fara að því að öðlast eðlilegt viðhorf til líkama síns á meðan slík viðhorf eru ríkjandi? Ekki er nóg með að þær heyri það úr öllum áttum að þær verði að vera í kjörþyngd, í fullkomnu formi og óaðfinnanlega klæddar og snyrtar, heldur er það nú ámælisvert að gangast við því að líkami kvenna lúti eðlilegum náttúrulögmálum. Hvert er samfélag sem sendir helmingi mannkyns slík skilaboð eiginlega komið? Umræðan um útlitsdýrkun og óraunhæfar kröfur í því sambandi hefur grasserað árum saman en árangurinn virðist furðu lítill. Jafnvel fjölmiðlar sem þykjast aðhyllast femínískar hugsjónir víla ekki fyrir sér að birta slúðurfréttir um útlit og klæðnað frægra kvenna, enda slíkt ávallt meðal mest lesnu fréttanna, svo dapurlega sem það nú hljómar. Burtséð frá afrekum kvennanna er það fyrst og síðast útlit þeirra sem áhugann vekur og ekki síst ef það skyldi nú vera hægt að fetta fingur út í það og gera lítið úr viðkomandi konu í leiðinni. Femínískar áherslur fjölmiðlanna rista nú ekki dýpra en svo. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Druslugangan á laugardag var gleðilegt framtak og gott innlegg í umræðuna um það að varpa ábyrgðinni á nauðgunum þangað sem hún á heima; til nauðgaranna. Tilgangur göngunnar var að undirstrika það að klæðnaður kvenna getur aldrei afsakað það að þeim sé nauðgað, að konum sé frjálst að klæðast hverju sem þær lystir án þess að vera stimplaðar druslur sem séu „að bjóða upp á það“. Góður punktur sem seint verður undirstrikaður um of. Fórnarlömb nauðgana eru þó ekki einu konurnar sem dæmdar eru fyrir klæðnað sinn. Stór hluti af umfjöllun fjölmiðla um konur snýst nefnilega um klæðnað þeirra, útlit og líkamlegt form. Fyrirsagnir á borð við „Í hverju er manneskjan eiginlega?“, „Svakalega hefur hún grennst“, „Komin í fantaform eftir barnsburð“ og aðrar álíka tröllríða slúðurfréttum netmiðla, bæði hérlendra og erlendra, á hverjum einasta degi. Nú síðast var það Katrín hertogaynja af Cambridge sem setti Twitter og aðra netmiðla á annan endann með því að reyna ekki að fela á sér magann á myndunum sem voru teknar daginn eftir fæðingu sonarins. Svo nærri netverjum gengu þessi ósköp að tímaritið OK! birti forsíðuviðtal við einkaþjálfara hennar, sem fullvissaði heimsbyggðina um að Katrín væri í fantaformi og maginn yrði horfinn innan nokkurra vikna. Og heimsbyggðin andaði sjálfsagt léttar. Aðrir fjölmiðlar og kommentarar á netinu hrósuðu hertogaynjunni fyrir þann kjark að reyna ekki að fela á sér magann og miklar bollaleggingar um hvort það hefði verið með vilja gert eður ei áttu sér stað. Flestir hölluðust að því að svo hefði verið og gengu jafnvel svo langt að segja að Katrín hefði „brotið blað“ í fjölmiðlaframkomu fræga fólksins. Að hún væri „algjör hetja“. Það var og. Það er reyndar að bera í bakkafullan lækinn að gera umfjöllun fjölmiðla um frægar konur að umtalsefni eina ferðina enn, en að það þyki hetjuskapur hjá konu að leyfa heiminum að sjá að magi hennar sé ekki skroppinn saman daginn eftir fæðingu er svo veruleikafirrt að það vekur ótta. Hvernig í ósköpunum eiga dætur okkar að fara að því að öðlast eðlilegt viðhorf til líkama síns á meðan slík viðhorf eru ríkjandi? Ekki er nóg með að þær heyri það úr öllum áttum að þær verði að vera í kjörþyngd, í fullkomnu formi og óaðfinnanlega klæddar og snyrtar, heldur er það nú ámælisvert að gangast við því að líkami kvenna lúti eðlilegum náttúrulögmálum. Hvert er samfélag sem sendir helmingi mannkyns slík skilaboð eiginlega komið? Umræðan um útlitsdýrkun og óraunhæfar kröfur í því sambandi hefur grasserað árum saman en árangurinn virðist furðu lítill. Jafnvel fjölmiðlar sem þykjast aðhyllast femínískar hugsjónir víla ekki fyrir sér að birta slúðurfréttir um útlit og klæðnað frægra kvenna, enda slíkt ávallt meðal mest lesnu fréttanna, svo dapurlega sem það nú hljómar. Burtséð frá afrekum kvennanna er það fyrst og síðast útlit þeirra sem áhugann vekur og ekki síst ef það skyldi nú vera hægt að fetta fingur út í það og gera lítið úr viðkomandi konu í leiðinni. Femínískar áherslur fjölmiðlanna rista nú ekki dýpra en svo.