Formúla 1

Vettel vonast enn eftir Schumacher-kraftaverki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Vettel.
Sebastian Vettel. Vísir/NordicPhotos/Getty

Þjóðverjinn Sebastian Vettel var spurður út í skíðaslys landa síns Michael Schumacher á blaðamannafundi á Spáni í dag en heimsmeistarinn var þá að prufukeyra nýja Red Bull bílinn.



„Ég var í sjokki yfir þessu eins og allir aðrir. Ég hef þekkt hann í langan tíma og hann er búinn að vera fyrirmyndin mín alla tíð. Ég kynntist honum enn betur þegar hann kom til baka og við töluðumst við reglulega," sagði Sebastian Vettel.



Michael Schumacher er enn í dái og ástand hans er sagt vera stöðugt. Hann fékk mikið höfuðhögg þegar hann datt á skíðum í Frakklandi í lok síðasta árs.



„Við vitum ekki enn í hvernig ástandi hann verður þegar hann vaknar sem er skelfilegt fyrir vini hans og ættingja. Ég er enn í sjokki yfir þessu en vonandi upplifum við kraftaverk og hann verður áfram sami maður og áður," sagði Sebastian Vettel.



Sebastian Vettel viðurkenndi ennfremur að hann hafi ekki heimsótt Michael Schumacher á spítalann í Grenoble en að hugur hans sé hjá Schumi og fjölskyldu hans.

Sebastian Vettel og Michael Schumacher.Vísir/NordicPhotos/Getty
Sebastian Vettel og Michael Schumacher.Vísir/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×