Þýskur fjölmiðill fullyrðir að Michael Schumacher hafi verið fluttur af gjörgæsludeild og sé ekki lengur í lífshættu.
Engu að síður er einnig fullyrt að líkurnar á því að Schumacher muni ná fullum bata fari minnkandi með hverjum degi.
Schumacher, einn fremsti ökuþór í sögu Formúlu 1, lenti í alvarlegu skíðaslysi í lok síðasta árs er hann skall með höfuðið utan í stein í Meribel í Frakklandi. Hann hefur verið í dái síðan og óttast að hann hafi hlotið alvarlegan heilaskaða eftir miklar blæðingar.
Engar opinberar fregnir hafa borist af líðan Schumacher síðan í apríl en þá staðfesti umboðsmaður hans, Sabine Kehm, að verið væri að reyna að vekja Schumacher úr dáinu.
Þýska blaðið Bunte hélt ofangreindu fram í dag en Kehm hefur ekki staðfest að staðhæfingar blaðsins séu réttar.
Læknar hafa áður haldið því fram í fjölmiðlum að það sé slæmt tákn að engar fréttir berist af Schumacher og að þeir telji afar ólíklegt að góðar fregnir muni nokkru sinni berast af ástandi hans.