Erlent

Hæsta viðbúnaðarstigi lýst yfir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Yfirvöld í Nígeríu hafa lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi eftir að karlmaður frá Líberíu lést úr ebólu þar í landi í vikunni. Maðurinn var að ferðast frá Líberíu til Lagas í Nígeríu þegar hann hné niður. Farið var með manninn í sóttkví á sjúkrahúsi þar sem hann lést tveimur dögum síðar.

Faraldurinn er sagður sá versti og skæðasti í sögunni og hefur dregið tæplega sjö hundruð manns til dauða frá því hann greindist fyrst í ársbyrjun. Ebólunnar varð fyrst vart í Gíneu og hefur síðan þá náð að breiðast út til nærliggjandi landa - Líberíu og Sierra Leone og óttast er að hann hafi nú borist Nígeríu, fjölmennasta ríkis í Afríku en þar búa um 170 milljónir manns. 

Onyebuchi Chukwu, heilbrigðisráðherra Nígeríu telur ólíklegt að fleiri hafi smitast þar í landi, en hefur þó fyrirskipað hert eftirlit á flugvöllum í höfnum og landamærum.

Ebóla-vírusinn smitast milli manna meðal annars í jarðarförum þeirra sem hafa látist af hans völdum. Rúmlega helmingur þeirra sem smitast af ebóla-vírusnum deyr. Engin lækning er til við vírusnum sem  veldur innvortis blæðingum og líffærabilun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×