Erlent

WHO biður þjóðir heimsins um hjálp gegn Ebólu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur biðlað til þjóða heimsins að leggja til úrræði og fjármagn til að hefta dreifingu Ebóluveirunnar. Einnig lýsti stofnunin yfir neyðarástandi vegna faraldursins, sem er umfangsmesti ebólufaraldur sem þekkist.

Fram til þessa hafa að minnsta kosti 961 látið lífið vegna veirunnar frá því hún kom upp i Gíneu í mars síðastliðnum. BBC segir að 1.779 einstaklingar hafi smitast af veirunni. Nú hefur hún dreifst til Sierra Leone og Líberíu, en einnig liggur grunur á smitum í Nígeríu.

Margaret Chan forstöðumaður WHO sagði þau lönd sem hafi orðið fyrir smiti ekki hafa burði til að kveða svo stóran faraldur niður sjálf, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Síðan ebóla uppgötvaðist fyrst árið 1976 hafa smit komið upp yfir tuttugu sinnum í Mið- og Austur-Afríku. Þetta er í fyrsta sinn sem veirunnar verður vart í Vestur-Afríku.

AP segir ekki ljóst hvaða áhrif neyðarástandsyfirlýsingin muni hafa. Síðast í maí lýsti stofnunin yfir neyðarástandi vegna lömunarveiki og smitum hefur ekki fækkað síðan.

„Yfirlýsingar bjarga ekki lífum,“ segir læknirinn Bart Janssens hjá Læknum án landamæra. Hann segir samtökin hafa haldið því fram í margar vikur, að þörf væri á aðstoð vegna veirunnar. „Fólk er að deyja því viðbrögðin hafa verið of hæg.“

Fyrr í vikunni sagði Alþjóðabankinn að 200 milljónum dollara yrði varið í baráttuna og heilbrigðiskerfi Vestur-Afríku. Þá tilkynnti Evrópusambandið í dag að það myndi bæta átta milljónum við og senda færanlega rannsóknarstöð á svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×