Peter Piot var í teymi vísindamanna sem uppgötvaði ebóluveiruna í blóðsýni úr belgískri nunnu sem hafði starfað í afríska ríkinu Zaire sem í dag er hluti af Kongó. Þetta var árið 1976 en það tók nokkurn tíma fyrir vísindamennina að átta sig á að um nýja og óþekkta veiru væri að ræða. Piot gaf veirunni nafn sitt sem dregið er af ánni Ebólu í Austur-Kongó.
Piot segist í upphafi ekki hafa óttast að ebóla myndi ná útbreiðslu en hann hafi áttað sig á því í júní að ástandið væri grafalvarlegt.
„Þetta er háalvarlegur faraldur, meðal annars fyrir þær sakir hversu hátt hlutfall þeirra sem sýkjast deyja. Um 80-90% sýktra láta lífið fái þeir ekki viðeigandi meðferð,” sagði hann.
Piot segir að ef að veiran stökkbreyti sér, sem sé líklegt, þá gæti hún breiðst hraðar út. Hann segist óttast ólýsanlegan harmleik á alheimsvísu í kjölfarið.
Undir þessar áhyggjur Piots tekur Bryndís Sigurðardóttir.
„Það er hörmungarástand. Ég er sammála yfirllýsingu Alþjóða heilbrigðismálaráðuneytisins þar sem menn segja ástandið grafaalvarlegt. Ef faraldurinn heldur áfram óbreyttur verða um 20 þúsund smitaðir í lok nóvember og jafnvel milljón í lok janúar. Það eru ógnvænlegar tölur," segir Bryndís, sem er settur yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Ebóla var meðal efnis fundar hjá velferðarnefnd Alþingis í gær þar sem farið var yfir stöðu mála hér á landi. Verið er að fullmanna hátt í þrjátíu manna viðbragðsteymi sem tekur til starfa ef ebólusmit kemur upp hér á landi. Þar kom meðal annars fram að hér á landi er ekki til viðunandi einangrunardeild líkt og á hinum Norðurlöndunum en að bráðalyflækningadeildin A2 í Fossvogi sé sú eina á landinu sem búin viðunandi loftræstingu. Yrði hún því notuð í breyttri mynd komi upp tilfelli af ebólu hér á landi.
„Sóttvarnarlækir benti á fundinum á að milli Norðurlandanna væri samkomulag svo löndin eru skuldbundin til að aðstoða hvort annað komi til krísuástands, varðandi sjúkraflutninga og innlagnir," sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, á Alþingi í gær.
„Það eru afar litlar líkur á því að þessi faraldur breiðist út í vestrænum löndum þar sem við höfum aðgang að sýkingavörnum og búnaði. Aðstæðurnar í Vestur-Afríku eru ólýsanlegar og aðbúnaður allur annar en sá sem við eigum að venjast. En innst inni hefur maður áhyggjur og við fylgjumst grannt með gangi mála í Bandaríkjunum og á Spáni,” segir Bryndís.
