Erlent

ESB sendir hjálpargögn til Vestur-Afríku

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Enn er barist við ebólu í Sierra Leone, Gíneu og Líberíu.
Enn er barist við ebólu í Sierra Leone, Gíneu og Líberíu. Vísir / AFP
Evrópusambandið hefur ákveðið að veita meiri aðstoð til ríkja í Vestur-Afríku þar sem ebólufaraldur hefur geisað undanfarna mánuði.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti að hann myndi verja 300 milljónum dala, jafnvirði rúmlega 37 milljarða króna, til aðstoðar við að hefta útbreiðslu ebóluveirunnar.

Evrópusambandið mun veita fimm þúsund tonn af hjálpargögnum til þriggja ríkja í Vestur-Afríku þar sem neyðin er mest. Þar á meðal eru sjúkrabílar og einangrunarstöðvar.

Í samtali við breska blaðið Observer segir Christos Stylianides, verkefnastjóri sambandsins í baráttunni við ebólu, að besta leiðin til að koma í veg fyrir að faraldur brjótist út í Evrópu sé að ná tökum á veirunni í Afríku. Hann segir að þegar séu skip á leið frá Hollandi til ríkjanna með hjálpargögn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að fleiri en fimm þúsund einstaklingar hafi látist vegna ebólusmits.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×