Enska knattspyrnusambandið er allt annað en sátt við skýrslu siðanefndar FIFA sem var birt í gær.
Þrátt fyrir stanslausar sögur um mútuþægni í kringum HM 2018 og 2022 voru Rússar og Katarmenn hreinsaðir af ásökunum um mútur og þess í stað var ráðist á Englendinga sem hafa verið óhræddir við að setja sig upp á móti æðstu herrum alþjóða knattspyrnusambandsins.
„Þessi skýrsla er brandari og allt þetta mál reyndar," sagði Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, og bætti við að málið liti afar illa út fyrir FIFA.
„Ég get ekki með nokkru móti tekið þessa skýrslu alvarlega. Það er með ólíkindum hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hjá FIFA og hafa lengi gert. Ég hef ekki trú á því að FIFA sé heiðarlegt samband og hefur ekki verið það í mörg ár."
Það var þýskur dómari, Hans-Joachim Eckert, sem gerði skýrsluna fyrir FIFA en hann byggði hana á vinnu bandaríska lögfræðingsins, Michael Garcia. Sá eyddi tveimur árum í að rannsaka spillingu hjá FIFA.
Aðeins fjórum tímum eftir að skýrslan kom út var Garcia búinn að kvarta yfir henni og ætlar að kæra hvernig FIFA hefur farið með hans vinnu.
„Þetta lítur mjög illa út fyrir FIFA. Maðurinn sem stóð að rannsóknunni segir að skýrslan endurspegli ekki hans vinnu. Það er alvarlegt mál fyrir FIFA. Garcia-skýrslan er ekki einu sinni rétt samkvæmt Garcia sjálfum," sagði Dyke.
Enski boltinn