Hluti hennar var tekinn upp á Svínafellsjökli fyrir rúmu ári með aðstoð Saga Film en myndin verður frumsýnd hér á landi 7. nóvember. Rúmlega 300 manna tökulið vann við myndina hér á landi, þar af yfir 100 Íslendingar. „Eftir að hafa séð stiklurnar, þar sem var gefið í skyn hversu mikið er sýnt af Íslandi í myndinni, vorum við að búast við slatta og við fengum það.“
Leikstjóri Interstellar er Christopher Nolan, sem m.a. er þekktur fyrir Batman-þríleik sinn. Matt Damon, Matthew McConaughey og Anne Hathaway eru í aðalhlutverkum. „Þetta er allt hið besta fólk og enginn var með neina stjörnustæla,“ segir Árni Björn, spurður út í samskipti sín við Hollywood-stjörnurnar. „Allir voru mjög mikið á jörðinni og Nolan er kóngurinn í ríki sínu. Það er enginn stærri en hann í Hollywood,“ segir hann.
„Á netinu eru menn að tala um Óskarsverðlaun en maður veit ekkert um það. Það er vonandi að þetta verði fyrsta íslenska „landslagið“ sem fær Óskarsverðlaun en ekki bara tilnefningar.“

Spurður hvað stjörnurnar hafi gert á milli kvikmyndatakna segir Árni Björn að þær hafi ekki gert neitt nema að vinna. „Það var ekkert verið að dúlla sér upp um fjöll og firnindi. Það var allt keyrt í gegn. Nolan vinnur mjög hratt og þess vegna skipti þetta veður í raun ekki máli því hann var búinn að vinna upp þann tíma.
Árni Björn er mjög hrifinn af Interstellar. „Hún er dálítið löng en menn verða að vera viðbúnir því. Þetta eru ekki 90 mínútur af froðu heldur eru miklar pælingar þarna í gangi,“ segir hann.
Til stendur að halda forsýningu á myndinni hér á landi og bjóða íslenska tökuliðinu, þar sem um eins konar uppskeruhátíð verður að ræða.