Bílar

Renault nálgast kaup á hlut í Force India

Finnur Thorlacius skrifar
Formula 1 bíll Force India.
Formula 1 bíll Force India.
Renault bílaframleiðandinn á í viðræðum við Force India liðið um kaup á ráðandi hlut í liðinu. Alan Prost, sem vinnur nú fyrir Renault, hefur átt nokkra fundi með Force India og þar hefur hann lýst áhuga Renault á að smíða bíl fyrir liðið, eiga ráðandi hlut í því en ekki eignast það að fullu.

Stjórn Force India vegur nú og metur stöðuna og þar á bæ ætti mönnum að hugnast svo öflugur liðsfélagi. Renault stendur nú á krossgötum í Formúlunni en samningur fyrirtækisins um útvegun véla fyrir Red Bull og Toro Rosso er á enda við lok næsta tímabils.

Ekki hefur reyndar gengið vel hjá þessum liðum á yfirstandandi keppnistímabili og því þykir líklegt að sá samningur verði ekki endurnýjaður. Renault átti eitt sinn Lotus liðið í Formúlu 1 og þótti líklegt að Renault hafi haft áhuga á því að eignast það aftur, en með þessum fréttum þykir það ólíklegra.

Einnig hafði heyrst að Renault hefði jafnvel hug á því að yfirgefa Formúlu 1 alveg og halla sér að Formula E mótaröðinni þar sem keppt er á rafmagnsbílum. Hvar Renault ber niður er óljóst, en forvitnilegt verður að sjá ákvörðun þess.






×