Sport

Besta hlaup Anítu á árinu dugði ekki í undanúrslit á HM | Endaði í 20. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Vísir/Getty
ÍR-ingurinn Aníta Hinriksdóttir endaði í 20. sæti í undanrásum 800 metra hlaups kvenna á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Peking í Kína í nótt.

Aníta komst ekki áfram í undanúrslitin og hefur lokið keppni á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í fullorðinsflokki.

Aníta kom í mark á 2:01.01 mínútum og varð í fimmta sæti í sínum riðli en hann var sterkur. Þetta er besta hlaup Anítu á árinu en hún átti best 2:01,15 mínútur frá móti á Belgíu í byrjun mánaðarins.

Eins og Ásdís Hjálmsdóttir segir frá hér fyrir neðan þá var Aníta aðeins 0.01 sekúndu frá því að ná lágmörkum á Ólympíuleikunum í Ríó sem fara fram á næsta ári. Það munaði því grátlega litlu að Aníta væri komin með farseðilinn til Brasilíu.

Það þurfti að hlaupa á 2:00.70 mínútum til þess að komast áfram í undanúrslitin. Hin breska Jennifer Meadows endaði í fjórða sætinu í riðlinum og komst áfram á tíma en hún var síðustu inn í undanúrslitin.

Aníta var aftarlega nær allt hlaupið en átti ágætan endasprett. Það dugði henni þó ekki til að komast í hóp þriggja fremstu. Það munaði samt ekki miklu enda var Aníta í öðru sæti af þeim sem komust ekki áfram í undanúrslitin á tíma.

Aníta var sjöunda sæti eftir fyrri hringinn. Þegar 150 metrar voru eftir virtist sem svo að hún væri að taka á mikinn sprett og ná einu af efstu þremur sætunum en síðustu 30 metrarnir voru henni erfiðir.

Sex konur komust áfram þrátt fyrir að hlaupa hægar en Aníta en þær tryggðu sér sitt sæti með því að ná einu af þremur efstu sætunum í sínum riðli.

Þrír fyrstu hlauparar í hverjum riðli og sex bestu tímarnir fyrir utan þá skiluðu hlaupurunum sæti í undanúrslitunum sem fara fram á morgun.

Aníta varð með þessu fyrsti Íslendingurinn sem keppir á heimsmeistaramótinu í ár en Ásdís Hjálmsdóttir hefur keppni í undankeppni spjótkasts kvenna á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×