Fótbolti

Hörður Björgvin aftur til Cesena

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður í baráttunni við Rodrigo Palacio, leikmann Inter.
Hörður í baráttunni við Rodrigo Palacio, leikmann Inter.
Hörður Björgvin Magnússon skrifaði í dag undir eins árs lánssamning við ítalska B-deildarliðið Cesena. Mbl.is greinir frá.

Hörður er samningsbundinn Ítalíumeisturum Juventus og hefur verið síðan 2011. Hann var lánaður til B-deildarliðs Spezia tímabilið 2013-14 en á síðasta tímabili lék hann sem lánsmaður með Cesena í ítölsku úrvalsdeildinni.

Hörður lék 12 leiki með Cesena í fyrra en liðið lenti í 19. sæti og féll úr deildinni.

Í lánssamningi Harðar, sem er uppalinn hjá Fram, er klásúlu þess efnis að Cesena geti keypt hann á 1,3 milljónir evra vinni liðið sér sæti í úrvalsdeildinni á nýjan leik.

Hörður, sem leikur annað hvort í stöðu miðvarðar eða vinstri bakvarðar, hefur leikið tvo A-landsleiki fyrir Ísland, auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×