Edda Garðarsdóttir, fyrrverandi fyrirliði kvennalandsliðsins í fótbolta, var í dag ráðin þjálfari KR í Pepsi-deild kvenna til næstu tveggja ára.
Edda, sem er uppalinn KR-ingur og spilaði með liðinu frá 1992-2004 og aftur frá 2007-2008, var aðstoðarþjálfari KR-liðsins í fyrra þegar það hélt sæti sínu sem nýliði.
Henni til aðstoðar verður Spánverjinn Alex Fernández sem hefur starfað hjá KR undanfarna mánuði.
Edda er þaulreynd landsliðs- og atvinnukona, en hún á að baki 103 landsleiki fyrir Ísland. Þá spilaði hún í atvinnumennsku í Svíþjóð og á Englandi.

