Bílar

Hagnaður GM ekki hærri frá gjaldþroti

Finnur Thorlacius skrifar
Höfuðstöðvar GM í Detroit.
Höfuðstöðvar GM í Detroit.
Þriðji ársfjórðungur var General Motors ábótasamur því allt frá því að bandaríska ríkið bjargaði fyrirtækinu frá gjaldþroti árið 2009 hefur GM ekki skilað meiri hagnaði á einum ársfjórðungi. Hagnaður GM nam 170 milljörðum króna. Hagnaður GM hefði orðið miklu meiri ef ekki hefði komið til mikilla bótagreiðsla vegna galla í ræsibúnaði GM bíla sem olli 124 dauðsföllum á undanförnum árum.

Sala bíla GM í Bandaríkjunum hefur verið með eindæmum góð og mikill hagnaður af rekstri þar, eða 11,8% á þessum síðasta ársfjórðungi. Ekki hefur þessi tala heldur verið hærri frá árinu 2009. Hlutabréfaverð í GM hækkaði um 4% við birtingu þessa góða árangurs GM. Meðal bílamerkja GM er Chevrolet, Cadillac, Buick, GMC, Opel, Vauxhall og Daewoo.

Enn tap í Evrópu

Góður söluárangur náðist einnig í Kína þrátt fyrir að kólnað hafi aðeins í bílamarkaðnum þar. GM hefur lengi tapað á rekstri í Evrópu en tapið þar minnkað úr 387 milljón dollurum í fyrra í 231 milljón í ár. Það er ekki síst batnandi gengi Opel sem hjálpað hefur til við þennan bata. GM áætlar að reksturinn í Evrópu skili hagnaði á næsta ári. Reksturinn í S-Ameríku versnaði á milli ára og nam tapið 217 milljón dollurum, en var 32 milljónir í fyrra.






×