Þrátt fyrir átök í París og Sýrlandi, streymi flóttafólks og áframhaldandi erfiðleika hjá fátækum þjóðum urðu ótrúlegar framfarir á lífskjörum jarðarbúa á árinu 2015. Þetta kemur fram í pistli í tímaritinu The Atlantic.
Bandaríkin eru friðsælli en á fyrri tímum, þrátt fyrir skotárásir. Þar voru þrjú þúsund færri ofbeldisglæpir á árinu og 600 þúsund færri en árið 1995, sem er 35 prósent lækkun.
Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hafa morð á heimsvísu dregist saman um sex prósent milli áranna 2000 og 2012.
Öll þróun var hins vegar ekki jákvæð á árinu. Hryðjuverk hafa aukist, átökin í Sýrlandi og upprisa ISIS ollu því að hryðjuverk aukast á ný eftir að hafa dregist verulega saman.
Á árinu dró úr þurrkum og í kjölfarið var minni matarskortur. Hlutfall vannærðra heimsbúa dróst saman um átta prósent milli áranna 1990 og 2015. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum deyja 6,7 milljónum færri börn á hverju ári samanborið við árið 1990.
Gott bóluefni kom í veg fyrir meiri skaða af ebólu. Talið er að veiran hafi dregið 11.315 manns til dauða á árinu. Hins vegar spáði Center for Disease Control að bólusetningar gegn ebólu skiluðu miklum árangri og hefðu komið í veg fyrir að allt að 1,4 milljónir veiktust af sjúkdómnum í stað 29 þúsunda.
Heimurinn virðist einnig vera að verða umburðarlyndari. Á árinu samþykkti bandaríska þingið hjónaband samkynhneigðra. Írar samþykktu það einnig. Á níu árum hefur löndum sem banna samfarir milli tveggja aðila af sama kyni fækkað um sautján. Pistlahöfundur The Atlantic spáir áframhaldandi velmegun á nýju ári.
2015 besta árið fyrir meðal manneskju
Sæunn Gísladóttir skrifar
