Bílar

Audi RS4 fær 480 hestafla 3,0 lítra V6 vél

Finnur Thorlacius skrifar
Audi RS4 er úlfur í sauðagæru.
Audi RS4 er úlfur í sauðagæru.
Núverandi gerð Audi RS4 Avant er með V8 vél sem sturtar út 450 grimmum hestöflum til allra hjóla bílsins, en sú vél verður aflögð í næstu gerð bílsins öfluga. Sést hefur til prófana nýja bílsins á Nürburgring brautinni þýsku og hann er með 3,0 lítra V6 vél.

Ný 3,0 lítra TFSI V6 vélin sem er í nokkrum gerðum Audi bíla er nú 354 hestöfl en það mun ekki duga í nýjum Audi RS4 bíl, því þá yrði hann aflminni og það er ekki títt milli kynslóða Audi bíla, né annarra framleiðenda. Því mun þessi vél fá nýjar gerðir forþjappa, líklega einhverjar þeirra rafdrifnar sem munu gefa þessari vél 480 hestöfl og 500 Nm tog.

Ekki einungis mun nýr Audi RS4 njóta aukins afls heldur mun bíllinn léttast mjög mikið, ekki bara vegna léttari vélar heldur einnig vegna þess að hann fær nýjan undirvagn, þann sama og er undir nýjum Audi A4 og S4. Audi RS4 verður fær um að taka sprettinn í 100 á litlum 4,2 sekúndum, sem er ekki slæmt fyrir fjölskyldubíl af langbaksgerð.






×