Bílar

BMW og Nissan í Formula E

Finnur Thorlacius skrifar
Frá Formula E keppninni.
Frá Formula E keppninni.
BMW hefur tengst Formula E keppnisröð rafmagnsbíla hingað til með því að útvega öryggisbíl til keppninnar í formi BMW i8 bíls, auk BMW i3 sjúkrabíla. Það gæti breyst á næstunni en BMW er nú að íhuga að vera með eigin keppnisbíla í þessari vaxandi keppnisröð.

Nissan hefur ekki enn sem komið verið með keppnisbíla þar þó svo samstarfsfyrirtækið Renault hafi gert það. Þar á bæ er einnig mikill áhugi á að bætast við keppnisbílaflotann. Þetta gæti gerst bæði í tilfelli BMW og Nissan strax á næsta keppnistímabili.

Nú þegar hafa 10 lið kynnt þátttöku sína á næsta tímabili, en gæti því fjölgað í 12 lið. Nissan þarf að leita samþykkis hjá Renault-Nissan Alliance áður en til þess kemur að Nissan bílar keppi við Renault bíla.

Það kemur alls ekki á óvart að BMW og Nissan vilji gera sig gildandi í keppni rafmagnsbíla sé horft til þess hve mikla áherslu bæði fyrirtækin leggja á framleiðslu rafmagnsbíla til almennings. Nissan Leaf og BMW i3 og i8 bílarnir eru meðal söluhæstu rafmagnsbíla heims og reyndar er Nissan Leaf bíllinn sá allra söluhæsti.






×