Körfubolti

Spánverjar heldur betur komnir í gang

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Mirotic var stigahæstur í spænska liðinu með 23 stig.
Nikola Mirotic var stigahæstur í spænska liðinu með 23 stig. vísir/getty
Spænska körfuboltalandsliðið er heldur betur komið í gang á Ólympíuleikunum í Ríó en Spánverjar komust í dag í undanúrslit eftir sannfærandi sigur á Frökkum, 92-67.

Spánverjar töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum á Ólympíuleikunum en hafa nú unnið fjóra leiki í röð og eru komnir í undanúrslit á þriðju Ólympíuleikunum í röð.

Þrátt fyrir sannfærandi sigur á Frökkum í dag hafði stórstjarnan Pau Gasol hægt um sig í liði Spánverja og skoraði aðeins fimm stig. Hann tók reyndar átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Fyrrverandi samherji hans hjá Chicago Bulls, Nikola Mirotic, var mjög öflugur í sókninni og skoraði 23 stig og nýtti fimm af þeim átta þriggja stiga skotum sem hann tók. Willy Hernangómez kom næstur með 18 stig.

Tony Parker var stigahæstur í franska liðinu með 14 stig en Nando De Colo kom næstur með 13 stig.

Spánn mætir annað hvort Bandaríkjunum eða Argentínu í undanúrslitunum en þessi lið eigast við seinna í kvöld.

Leikur Bandaríkjanna og Argentínu hefst klukkan 21:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×