Bílar

Löggan í LA á Tesla

Finnur Thorlacius skrifar
Teslan tekur sig vel út í lögguklæðum.
Teslan tekur sig vel út í lögguklæðum.
Lögreglan í Los Angeles er einkar umhverfisvæn því í bílaflota hennar eru ekki bara eitt hundrað BMW i3 rafmagnsbílar heldur einnig Tesla Model S P85D bílar. BMW i3 bílarnir eru notaðir í verkefni sem ekki krefjast hraðs aksturs, en Tesla bílarnir eru afar hentugir til þess starfa því Model S P85D er aðeins 3,2 sekúndur í 100 km hraða og fáir aðrir bílar sem stinga hann af.

Tesla Model S P85D er líka með mikla drægni af rafmagnsbílum að vera, eða 450 km. Það kostar hinsvegar skildinginn að kaupa svo öfluga og vandaða gerð bíla sem Tesla Model S P85D, en verðmiðinn er yfir 100.000 dollarar, eða 11,5 milljónir króna.

Ef til vill slær þó Tesla eitthvað af verði þessara bíla fyrir lögregluna í Los Angeles, þó ekki væri nema til þess að skapa gott fordæmi fyrir önnur lögregluembætti. Markmið lögregluembættisins í Los Angeles er að bílafloti þess mengi alls ekki neitt, en í bílaflota þess eru þó enn margir bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti.






×