Í fyrra voru verðlaunin veitt Óskarstilnefndu kvikmyndinni Carol eftir Todd Haynes með Cate Blanchett og Rooney Mara í aðalhlutverkum. Guðmundur Arnar var viðstaddur hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.
Fyrr í október vann Hjartasteinn til þrennra verðlauna í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá í Póllandi. Guðmundur Arnar var valinn besti leikstjórinn, Baldur Einarsson hlaut sérstök dómnefndarverðlaun fyrir leik sinn í myndinni og myndin vann til Kirkjuverðlauna hátíðarinnar. Engin önnur mynd hlaut jafn mörg verðlaun á hátíðinni í ár. Um mikinn heiður er að ræða enda er Varsjár hátíðin ein af fáum „A“ kvikmyndahátíðum í heiminum.

Hjartasteinn var heimsfrumsýnd í Venice Days dagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum í september og vann þar til Queer Lion verðlauna hátíðarinnar. Eftir það hefur hún tekið þátt á fjölda virtra alþjóðlegra kvikmyndahátíða, m.a. í Toronto í Kanada, Busan í Suður Kóreu og Gent í Belgíu.
Næst mun Hjartasteinn m.a. taka þátt í keppni Molodist kvikmyndahátíðarinnar í Úkraínu, í keppni CPH PIX í Danmörku, í keppni Norrænu kvikmyndadaganna í Lubeck í Þýskalandi, í keppni Evrópsku kvikmyndahátíðarinnar í Sevilla á Spáni, í New Filmmakers keppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Sao Paulo í Brasilíu og í keppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Þessalóníku í Grikklandi. Hjartasteinn verður frumsýnd í kvikmyndahúsum hérlendis í kringum áramótin.
Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen, Danirnir Anne Østerud og Janus Billeskov Jansen sjá um klippingu og Daninn Kristian Eidnes Andersen semur tónlist myndarinnar. Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er hið þýska Films Boutique og SENA sér um innlenda dreifingu hennar.
Myndin var gerð með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Dönsku kvikmyndastofnunarinnar og Evrópska kvikmyndasjóðsins Eurimages.
Með helstu hlutverk fara ungstirnin Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Katla Njálsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Daníel Hans Erlendsson, Theodór Pálsson og Sveinn Sigurbjörnsson ásamt þeim þaulreyndu Nínu Dögg Filippusdóttur, Sveini Ólafi Gunnarssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Søren Malling og Gunnari Jónssyni.
Guðmundur Arnar Guðmundsson hefur getið sér góðs orðs sem leikstjóri og handritshöfundur á undanförnum árum fyrir margverðlaunaðar stuttmyndir sínar. Þar hefur Hvalfjörður reynst vera sérlega sigursæl, enda unnið til 45 verðlauna á kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn, þar á meðal sérstök dómnefndarverðlaun í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes árið 2013.