Matur

Keppni hafin hjá kokkalandsliðinu í heitum réttum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Flottur hópur.
Flottur hópur.
Kokkalandsliðið hefur hafið keppni í síðari keppnisgrein sinni á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem fram fer í Þýskalandi. Í dag er keppt í heitum réttum og hefur sex manna hópur úr Kokkalandsliðinu sex klukkustundir til að matreiða þriggja rétta máltíð fyrir dómara og 110 gesti.

Alþjóðlegt lið dómara dæmir í keppninni þar sem meðal annars er tekið mið af bragði, útliti, samsetningu, hráefnisvali og fagmennsku við undirbúning og matargerð.

Kokkalandsliðið leggur áherslu á að nota sem mest af hágæða íslensku hráefni í matargerðina sem var sérstaklega flutt á keppnisstað. Matseðillinn er svohljóðandi:

Forréttur

Léttreykt ýsa með humri, íslensk smágúrka með vatnakarsakremi og grásleppuhrognum. Gljáð svartrót og svartrótarflögur, brúnaður laukur, humar- og kræklingasmjörsósa.

Aðalréttur

Nautahryggur og nautamergur með jurtum, hægelduð nautabringa með grilluðu grænkáli og jarðskokkamauki. Kartafla með svörtum hvítlauk og parmesanosti. Ristaðir shiitake sveppir, bóndabaunir og blaðlaukur. Uxahala- og rauðvínssósa.

Eftirréttur

Skyr- og karamellumús, rifsberjahlaup, stökkar hnetur og kakónibbur. Pera með verbenadressingu og pistasíum.  Stökk vatnsdeigsbolla með sítrónukremi. Skyrís á súkkulaði og kakóbaunum.

Á keppnisstað eru nokkur fullbúin eldhús fyrir landsliðin þar sem keppt er á hverjum degi í fimm daga. Keppt er um gull, silfur og brons verðlaun. Landsliðin frá Kýpur, Tékklandi, Möltu, Hollandi, Nýja Sjálandi, Singapor og Sri Lanka keppa í dag á sama tíma og íslenska landsliðið. Alls eru landslið frá um 40 löndum sem keppa í nokkrum keppnum. Búist er við hátt í 25.000 gestum í keppnishöllina meðan á keppninni stendur. Gestir hafa möguleika á að sjá inn í eldhús landsliðanna og fylgjast með kokkunum að störfum.

Í Kokkalandsliðinu eru: Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri liðsins, Þráinn Freyr Vigfússon þjálfari, Bjarni Siguróli Jakobsson fyrirliði, Björn Bragi Bragason forseti KM/framkvæmdastjórn, Steinn Óskar Sigurðsson liðsstjóri, Jóhannes Steinn Jóhannsesson liðsstjóri, Fannar Vernharðsson, Ylfa Helgadóttir, Hafsteinn Ólafsson, Axel Clausen, Garðar Kári Garðarsson, Hrafnkell Sigríðarson, Atli Þór Erlendsson, Sigurður Ágústsson, Georg Arnar Halldórsson og María Shramko.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×