Enski boltinn

Sjóðheitur Elías Már skoraði sigurmark Gautaborgar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elías Már Ómarsson skorar og skorar í Svíþjóð.
Elías Már Ómarsson skorar og skorar í Svíþjóð. mynd/ifk
Elías Már Ómarsson var hetja IFK Gautaborgar í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en hann skoraði sigurmark liðsins í 1-0 sigri á AIK á heimavelli.

Elías Már skoraði markið á 26. mínútu eftir sendingu frá Emil Salomonssyni. Haukur Heiðar Hauksson var ekki með AIK í leiknum.

Markið heldur Evrópudraumum Gautaborgarliðsins á lífi en það er samt sem áður sjö stigum frá AIK í fjórða sæti deildarinnar með 46 stig. Þrír leikir eru eftir.

Elías Már er búinn að fara á kostum síðan hann kom á láni til Gautaborgar frá Vålerenga í Noregi. Þetta var fimmta markið hans í síðustu tíu leikjum en í síðustu umferð lagði hann upp eitt mark í 3-3 jafntefli gegn Gefle.

Í Danmörku var Guðlaugur Victor Pálsson á miðjunni hjá Esbjerg sem tapaði, 3-1, fyrir Midtjylland. Staðan var 1-1 fram á 62. mínútu en þá skoruðu gestirnir tvisvar sinnum á tveimur mínútum og tryggðu sér sigurinn.

Victor og félagar eru í neðsta sæti deildarinnar með átta stig en þeir eru aðeins búnir að vinna einn leik af fjórtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×