Bílar

Vistvænir bílar gætu hækkað um 24%

Finnur Thorlacius skrifar
Audi Q7 myndi hækka um milljón krónur um áramót ef af framlengingu virðisaukaafsláttar yrði ekki.
Audi Q7 myndi hækka um milljón krónur um áramót ef af framlengingu virðisaukaafsláttar yrði ekki.
Lengi hefur verið óskað eftir langtímastefnu yfirvalda hvað varðar hvata til kaupa á vistvænum bílum, en lög um skattaafslátt á virðisuaka við kaup á vistvænum bílum hefur á undanförnum árum verið framlengd rétt fyrir hver áramót. Það hefur valdið söluumboðum landsins óvissu um verð á þeim bílum sem um þennan skattafslátt varðar og réttu verði þeirra eftir hver áramót.

Aftur og enn einu sinni er þessi óvissa uppi. Slíka óvissu hafa yfirvöld í Noregi ekki viljað bjóða þegnum sínum með því að gefa upp þann árafjölda sem lögin muni gilda fyrir. Hafa Norðmenn nýverið framlengt þessi skattaafsláttarlög til ársins 2020.

20,6% hækkun á Audi A3 e-tron

Sem dæmi um þessa óvissu hér á landi þá á Hekla í pöntun nokkra Audi Q7 e-tron tengiltvinnjeppa sem sumir hverjir koma til landsins rétt eftir áramót. Ef lögin um skattaafslátt verður framlengt mun verð þessara bíla verða það sama og í dag, eða 11.390.000 kr. En ef þeim verður ekki framlengt mun verðið hækka um eina milljón króna, í 12.390.000 og því hætt við því að þeir sem pantað hafa jeppana muni hætta við kaup á þeim.

Það sama er uppá teningnum hvað varðar nokkra Audi A3 e-tron tengitvinnbíla, sem eru mun ódýrari bílar. Nú kostar hann 4.860.000 kr. með skattaafslættinum, en ef lögum um hann verður ekki framlengt á næsta ári mun bíllinn kosta 5.860.000 kr. Með því hækkar sá bíll um hvorki meira né minna en 20,6%, en jeppinn hækkar um 8,8%. Þá má telja víst að tilvonandi kaupendur á þessum vistvæna bíl snúi sér að öðrum og ódýrari hefðbundnum bílum, sem menga mun meira. 

Nissan Leaf gæti hækkað um 24%

Hekla er ekki eina umboðið sem glímir við þessa óvissu, en hjá BL má fá einn vinsælasta rafmagnsbíl landsins á síðustu árum, þ.e. Nissan Leaf. Hann kostar nú frá 3.390.000 kr. en mun hækka í 4.200.000 kr. ef lögin verða ekki framlengd. Þar gildir það sama að viðskiptavinir hafa pantað slíkan bíl en þeir koma ekki til landsins fyrr en eftir áramót.

Því eru þeir í óvissu um endanlegt verð bílsins og munar þar hvorki meira né minna en 24,0% á verðinu. Hjá BL má einnig fá BMW i3 rafmagnsbílinn sem kostar nú 4.860.000 kr. en hækkar í 5.860.000 kr. ef af framlengingu laganna verður ekki. Sú hækkun nemur 20,6%.

Endanlegt svar með fjárlögum

Þær upplýsingar fengust hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu að ekki væri að vænta svars um framlengingu skattaafsláttarins fyrr en með nýjum fjárlögum og engin dagsetning komin á birtingu þeirra. Á meðan vita bílaumboðin hér á landi ekki á hvaða verði þau geta kynnt umhverfisvæna bíla sína.






×