
Abbey Road er víðfrægt hljóðver en trúlega tengja flestir það við Bítlana enda tóku þeir upp mestallt sitt efni þar á árunum 1962-1970. „Ég reyndi að halda kúlinu allan daginn og það tókst ágætlega. Það var 12 manna teymi inni í stjórnherberginu með okkur allan tímann og maður varð að líta út fyrir að vera atvinnumaður, þó að það hafi verið erfitt á köflum, því mann langaði helst að hoppa, fíflast og kætast yfir þessu öllu saman,“ segir hann léttur.
Sinfóníuhljómsveitin Chamber Orchestra of London hefur spilað undir í mörgum kvikmyndum eins og James Bond og Harry Potter og sjónvarpsþáttaröðunum Planet Earth og Downton Abbey. Hljómsveitin hefur unnið með mörgum tónskáldum sem Birgir lítur upp til og viðurkennir hann að hafa verið örlítið stressaður þegar hann ávarpaði sveitina í fyrsta sinn. „Það var alger draumur að vinna með þeim. Betri klassískum hljóðfæraleikurum hef ég ekki unnið með áður, maður gæti alveg vanist þessu.“
Birgir er að vinna að sinni annarri breiðskífu og er búinn að semja 11 lög. „Ég sem bæði einn og með konunni minni og vinum og án þeirra væri ég ekki kominn svona langt og hefði líklega ekki haldið þetta út. Mér finnst ég vera að kafa dýpra í sjálfan mig á þessari plötu.
Eins og fyrri platan, þá er þessi einnig mjög persónuleg og fjallar um þá hluti sem ég og mínir erum að takast á við í lífinu. Þessi lög eru öll sprottin af tilfinningum, án þeirra hefðu lögin líklega ekki orðið til.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.