Hann svarar í símann á lögmannsstofunni. Samt er klukkan orðin meira en fimm. „Það ræður engu,“ segir hann þegar haft er orð á því. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur vinnur fulla vinnu þó kominn sé yfir áttrætt, kveðst þó aðeins hafa dregið úr henni frá því hann hafði sem mest umleikis.
Ragnar hélt hádegissamkomu á skrifstofu sinni nýlega til að fagna 50 ára lögmannsréttindum í Hæstarétti. Héraðsdómslögmaður varð hann í desember 1962.
Hvaða mál finnst honum standa upp úr á ferlinum? „Ég hef fengist við flest svið lögfræðinnar en ekki öll í einu. Lengst við höfundarrétt. Í næstum 40 ár var ég lögfræðilegur ráðunautur rithöfunda og fleiri. Svo hef ég fengist við sjórétt, vátryggingarétt, fjarskiptarétt, mannréttindi, eignaréttindi.
Fékk mikinn áhuga á eignarétti í sambandi við þjóðlendumálin. Vann fyrir bændur og þótti ríkið ganga æði langt í því að reyna að ná til sín jörðum sem þeir höfðu þinglýstar eignarheimildir fyrir í hundrað og fimmtíu ár.“
Mestan áhuga kveðst Ragnar hafa haft á rétti bændanna yfir afréttum. „Ég las mikið af íslenskum og norrænum heimildum til að átta mig á fyrirbrigðinu og komst að því að það var séríslenskt. Íslendingar settu sér reglur í sambandi við ofnýtingu strax á Grágásartímabilinu. Svo voru reglur um hvernig ætti að reka á fjall þegar menn þurftu að fara yfir jarðir annarra. Ég hef ekki getað fundið nein fordæmi í norskri löggjöf að slíkum reglum frá þessum tíma.“
Ragnar kveðst hafa verið leitandi ungur maður.
„Ég byrjaði nú á að fara til Suður-Evrópu og Norður-Afríku því það var ekki ljóst hvað ég ætlaði að fást við. Fór fyrst í háskóla í Madrid en leiddist þar og fór á flakk. En ég hef alltaf haft áhuga á mannréttindum í samfélaginu og líka á valdinu og misnotkun á því.
Það var ekki um margt að velja á þessum árum í Háskóla Íslands þannig að lögfræðin varð fyrir valinu,“ segir hann og kveðst hafa lært mest af eigin lestri en tekur fram að í deildinni hafi samt verið góðir kennarar eins og Ármann Snævar og Theódór B. Líndal.
Nú er Ragnar með eigin rekstur og hjá honum vinna 10 lögfræðingar. „Þegar ég byrjaði hér á Klapparstígnum árið 2000 ætlaði ég vera aleinn part úr degi og bjó til spjald sem á stóð: Opið mánudaga til fimmtudaga frá 9 til 13 en það tókst nú ekki betur en þetta,“ segir hann hlæjandi og viðurkennir að erfitt sé að takmarka sig í þessu starfi.
„Annaðhvort er að sinna því eða ekki,“ segir hann. „Ég ætlaði að leggjast í eitthvert fræðagrúsk en það varð minna úr því.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. desember 2016.
Hefur fengist við flest svið lögfræðinnar um ævina
Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar

Mest lesið


Mikil ást á klúbbnum
Lífið







Gurrý selur slotið
Lífið

Snerting, Ljósbrot og Ljósvíkingar bítast um Edduna
Bíó og sjónvarp