Bílar

Verksmiðja Kia í Zilina fagnar 10 ára afmæli

Finnur Thorlacius skrifar
Frá verksmiðju Kia í Zilina.
Frá verksmiðju Kia í Zilina.
Verksmiðja Kia í Zilina í Slóvakíu fagnar 10 ára afmæli nú í desember. Verksmiðjan hefur framleitt meira en 2,5 milljón Kia bíla fyrir Evrópumarkað og meira en 3,8 milljónir véla í Kia bíla á þessum tíma. Verksmiðjan hefur raunar átt fullt í fangi með að anna eftirspurn undanfarin misseri enda hefur sala Kia bíla aukist jafnt og þétt í Evrópu.

Bygging verksmiðjunnar, þar sem eingöngu eru framleiddir Kia bílar fyrir Evrópumarkað, hófst í apríl 2004 og framleiðsla hófst þar í árslok 2006. Nú 10 árum síðar er þessi hátæknivædda verksmiðja ein sú fullkomnasta sem bílaframleiðandi hefur yfir að ráða í Evrópu.

Þar framleiðir Kia bíla sem uppfylla hæstu gæðaviðmið í álfunni. Verksmiðjan setur ekki einungis ný viðmið í skilvirkni og framleiðni heldur uppfyllir hún um leið ströngustu reglugerðir á sviði umhverfismála sem í gildi eru innan Evrópusambandsins. Gæði er forgangsatriði í allri starfsemi Kia. Af þeim sökum er einn af hverjum 15 starfsmönnum í verksmiðjunni í Zilina ábyrgur fyrir gæðaeftirliti.

Kia hefur mikla trú á gæðum bíla sinna og býður 7 ár ábyrgð á öllum nýjum Kia bílum sem er lengsta ábyrgð sem bílaframleiðandi býður upp á í heiminum. Í verksmiðjunni starfa tæplega 4.000 starfsmenn. Unnið er á vöktum allan sólarhringinn í verksmiðjunni þannig að framleiðslan stoppar aldrei.






×