Ross-íshellan á Vestur-Suðurskautslandinu er stærsta fljótandi íshella jarðarinnar. Vísindamenn hafa óttast um afdrif hennar í hlýnandi heimi undanfarin ár og telja að hún geti brotnað algerlega upp. Bráðnunarviðburðurinn sem þeir mældu yfir sumarmánuðina á suðurhveli í fyrra gerir lítið til að lina áhyggjur þeirra, samkvæmt frétt Washington Post.
Vísindamennirnir sem koma frá Scripps-hafrannsóknastofnuninni og Ohio-ríkisháskóla auk fleiri stofnana grunaði að eitthvað væri á seyði þegar mælitæki þeirra á Vestur-Suðurskautslandinu sýndu mikla hlýnun andrúmslofts og ský sem báru með sér mikinn raka. Örbylgjugervihnattarmælingar sýndu þeim síðan umfang bráðnunarinnar sem átti sér stað.

Íshellan var þó ekki hulin stöðuvötnum bráðnunarvatns heldur segir David Brownwich frá Ohio-háskóla að vatnið hafi sigið ofan í snjóinn og myndað krapa. Bráðunin átti sér stað þegar sterkur El niño-viðburður átti sér stað. Veðurfyrirbrigðið flytur oft verulegan varma til Suðurskautslandsins.
Sá fátíði viburður virðist einnig hafa gerst að regn hafi fallið á íshelluna og kom það vísindamönnunum í opna skjöldu. Rannsakendurnir birtu grein um athuganir sínar í vísindaritinu Nature Communications.
Þó að bráðnun íssins í Ross-hellunni stuðli ekki að hækkun yfirborðs sjávar óttast menn að ef hún lætur undan síga eigi landís af meginlandi Suðurskautslandsins greiða leið út í hafið. Það myndi hækka sjávarstöðu með verulegum áhrifum á strandbyggðir manna.
Vísindamenn hafa áætlað að bráðnun á Suðurskautslandinu geti ein og sér hækkað yfirborð sjávar um 1,2 metra á þessari öld.