Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands og fyrrverandi formaður Sannra Finna, sem og aðrir ráðherrar úr röðum Sannra Finna vilja starfa áfram í finnsku ríkisstjórninni og hafa sagt skilið við þingflokk Sannra Finna.
Frá þessu var greint í morgun. Ljóst var í gær að ríkisstjórn Miðflokks Juha Sipilä forsætisráðherra, Þjóðarbandalagsins og Sannra Finna myndi falla eftir að Sipilä og fjármálaráðherrann Petteri Orpo, formaður Þjóðarbandalagsins, sögðust ekki geta starfað með Sönnum Finnum undir formennsku Evrópuþingmannsins Jussi Halla-aho.
Halla-aho tók við formennsku í Sönnum Finnum af Soini á landsfundi um helgina, en Halla-aho þykir mun harðari í andstöðu sinni í garð innflytjenda en forverinn og hefur áður hlotið dóm fyrir hatursummæli.
Alls hafa tuttugu þingmenn Sannra Finna nú sagt skilið við þingflokkinn og myndað þingflokkinn Uusi vaihtoehto (Nýi valkosturinn). Simon Elo verður formaður þingflokksins, en Soini verður óbreyttur þingmaður.
Nýi þingflokkurinn segist reiðubúinn að starfa áfram í ríkisstjórn undir forystu Sipilä og með sama stjórnarsáttmála. Allir núsitjandi ráðherrar Sannra Finna eru í nýja þingflokknum, en tölfræðilega gæti Miðflokkurinn, Þjóðarflokkurinn og nýi þingflokkurinn myndað saman meirihluta. Sautján þingmenn Sannra Finna munu starfa áfram undir merkjum Sannra Finna.
Tilkynningin um boð þingmannanna og myndun hins nýja þingflokks kemur örfáum klukkustundum áður en fyrirhugaður fundur Sipilä og Sauli Niinistö forseta hefst, en þar hyggst Sipilä tilkynna um afsögn sína. Að því loknu myndu viðræður um myndun nýrrar stjórnar hefjast.
Meirihluti þingmanna Sannra Finna segir skilið við flokkinn

Tengdar fréttir

Sipilä: Engar forsendur fyrir áframhaldandi samstarf við Sanna Finna
Flest bendir til að ríkisstjórn Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, sé að falla.