Lífið

Hvar er best að búa: Fimm manna fjölskylda til Noregs eftir óvænt símtal

Stefán Árni Pálsson skrifar
Erla og Páll búa í Noregi ásamt börnunum sínum þremur.
Erla og Páll búa í Noregi ásamt börnunum sínum þremur.
Hvað gerir fimm manna fjölskylda í Grafarvogi þegar húsmóðirin á heimilinu fær óvænt símtal frá norskum manni sem vill auglýsa til leigu rekstur á eggja- og eplabúi í Noregi?

Fjölskyldan, sem heimsótt er í fyrsta þætti haustsins af Hvar er best að búa?, ákvað að kitla ævintýraþrána og grípa þetta óvænta tækifæri. Blaðamaðurinn Erla og smiðurinn Palli ákváðu að yfirgefa fína stóra húsið sitt í Grafarvogi í höfuðborg Íslands og flytja með börnin þrjú í leighúsnæði í smáþorpi við Harðangursfjörðinn í Noregi.

Og verða eggja- og eplabændur. En hvernig er að búa í Noregi, hvað kostar húsnæði, leiga, matur, heilsugæsla og hvernig gengur börnunum að aðlagast nýju tungumáli? Leitað verður svara við því í þætti kvöldsins.

Erla Gunnarsdóttir og Páll Dagbjartur Sigurðsson eru sannarlega ekki einu Íslendingarnar sem hafa flutt til Noregs á liðnum árum. Fyrstu árin eftir hrun fluttu langflestir Íslendingar til Noregs. Eftir því sem næst verður komist búa í kringum 7500 Íslendingar í Noregi í dag, litlu færri en í Danmörku.

Þáttaröðin Hvar er best að búa? hefur göngu sína aftur í kvöld á Stöð 2 kl. 19:50. Í þessum þremur þáttum haustsins heimsækir Lóa Pind og myndatökumaður fjölskyldur í Noregi, Kanada og á Kanarí.

Umsjón og framleiðsla þáttanna er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, myndatökumenn eru Egill Aðalsteinsson og Friðrik Friðriksson, klippingu annast Ómar Daði Kristjánsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×