Sársaukinn hefur mörg andlit Vera Einarsdóttir skrifar 29. ágúst 2017 10:00 Sigríður segir líkamlegan og tilfinningalegan sársauka tengjast órjúfanlegum böndum. MYND/VILHELM Málþingið Svipbrigði sársaukans verður haldið í Háskóla Íslands dagana 1. til 3. september. Þar kemur saman fólk úr ólíkum fræðigreinum og ræðir um sársauka og þjáningu frá ýmsum hliðum. Fyrirlesarar málþingsins, sem á ensku nefnist The Many Faces of Pain, koma úr bókmenntafræði, heilbrigðisvísindum og gervigreindarfræðum. Auk þess taka þrír rithöfundar til máls. Markmiðið er að fá þátttakendur til að bera saman bækur sínar og efla þannig skilning á sársauka og þjáningu sem flestir þekkja af eigin raun. Hjúkrunarfræðingurinn Sigríður Zoëga er einn þriggja skipuleggjenda málþingsins. Hún starfar við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og í verkjateymi Landspítalans. Hún segir hugmyndina hafa kviknað hjá Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur, prófessor í íslensku, sem hefur lengi velt fyrir sér tengslum hug- og heilbrigðisvísinda. „Einn doktorsnemi hennar hefur verið að skoða sársauka og út frá því fórum við ásamt Hannesi Högna Vilhjálmssyni, hjá Gervigreindarsetri HR, að velta fyrir okkur hvort ekki væri hægt að setja saman málþing þar sem efnið væri skoðað frá sem flestum hliðum.“ Sigríður segir líkamlegan og tilfinningalegan sársauka tengjast órjúfanlegum böndum. „Við skynjum líkamlega verki en um leið verður til tilfinningaleg reynsla. Við fótbrot fer af stað ákveðið ferli í líkamanum en um leið verður til túlkun á verkjaboðunum í heilanum. Við hugsum; hverju breytir þetta fyrir mig og hvernig líður mér.“ Sigríður segir margt spila inn í upplifun fólks af sársauka og að ýmislegt sé hægt að gera til að hafa áhrif á verkina. Þá er ekki aðeins átt við hefðbundin inngrip og verkjalyf heldur sé í raun nauðsynlegt að vinna með einstaklinginn í heild. Fimm lykilfyrirlesarar taka þátt í málþinginu, sem fer fram á ensku. Þeir koma allir að utan en auk þess taka fimmtán Íslendingar til máls. „Við sem tengjumst heilbrigðisvísindunum nálgumst efnið að mestu út frá þessum hefðbundnu líkamlegu verkjum en síðan verða þarna fyrirlesarar sem tala um sársauka hjá samkynhneigðum og innflytjendum svo dæmi séu nefnd. Þá mun sálfræðingurinn Christopher Eccleston, sem leiðir verkjarannsóknir við háskólann í Bath, fjalla um sálfræði líkamlegrar skynjunar svo dæmi sé tekið.“ Sigríður segir markmiðið ekki síður að fjalla um um þjáninguna og mun Valgerður Sigurðardóttir, yfirlæknir á líknardeild Landspítala, meðal annars koma inn á þjáningu við lífslok. „Þá er ekki aðeins um að ræða líkamlega þjáningu heldur líka þjáninguna sem felst í yfirvofandi andláti og þeim hugsunum sem bærast með fólki í þeim sporum.“ Rithöfundarnir Naila Zahin, Auður Ava Ólafsdóttir og Hallgrímur Helgason leggja svo sitt af mörkum en þau hafa öll fengist við sársauka og þjáningu, hvert með sínum hætti. Sjálf heldur Sigríður erindi undir yfirskriftinni Pain, is it a problem? Í starfi sínu á Landspítalanum hittir hún bæði inniliggjandi sjúklinga og fólk sem kemur inn á göngudeild og veitir ýmiss konar verkjameðferð, fræðslu og ráðgjöf. „Við erum þó ekki síður að fylgja fólki eftir og fræða það um þá möguleika sem standa til boða ásamt því að veita stuðning, enda óhjákvæmilegt að sinna andlega þættinum samhliða þeim líkamlega.“ Að sögn Sigríðar byrjar fólk oft á því að reyna að sannfæra hana um að það sé með verki. „Ef um er að ræða fótbrot eða botnlangakast sjást verkirnir yfirleitt utan á fólki. Þegar um langvinna verki er að ræða eru þeir hins vegar ekki eins sýnilegir og margir lenda í því að þeim er hreinlega ekki trúað.“ Sigríður segir bráða verki grunnviðbragð sem hjálpi fólki að halda lífi. „Þeir gefa okkur merki um að eitthvað sé að svo við drögum okkur í hlé, hvílumst eða leitum aðstoðar. Þegar um langvinna verki er að ræða hætta þeir að vera þetta viðvörunarmerki. Taugakerfið fær engu að síður áfram boð um að eitthvað sé að og við finnum áfram til.“ Sigríður segir ýmsa sjúkdóma liggja að baki miklum verkjum. Má þar nefna HIV, gigt, sykursýki, krabbamein og ýmsa taugasjúkdóma. Sömuleiðis áverka eftir slys og verki í tengslum við aðgerðir. „Stundum vitum við þó ekki hvað orsakar verkina. Fólk getur til dæmis verið með slæma verki í baki þótt ekkert sjáist á mynd. Það reynist mörgum erfitt því þá er engin haldbær skýring. Verkirnir eru eftir sem áður til staðar.“ Nýverið spurði Sigríður sjúkling hver upplifun hans væri af því að vera með króníska verki. Hann svaraði því til að verkirnir hefðu stolið frá honum lífinu. Hann gæti ekki gert það sama og aðrir og að verkirnir settu hann til hliðar í samfélaginu. Hann sagði þó erfiðast að verkirnir sæjust ekki utan á honum. Spurð hverjum málþingið sé ætlað segir Sigríður það opið öllum og ókeypis inn. „Við þjáumst öll og sumir segja þjáninguna jafnvel nauðsynlega til að finna tilgang lífsins. Við getum því öll speglað okkur í efninu.“ Allar nánari upplýsingar er að finna á hi.is Mest lesið Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Lífið Galvaskar Gucci gellur á galakvöldi Tíska og hönnun Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Lífið Sunneva nefndi son Jóhönnu Lífið Segist aldrei myndu deita Depp Lífið Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Lífið Stjörnulífið: Hrekkjavaka og seiðandi kroppar Lífið Tjáði sig óvænt um sína fyrrverandi Lífið Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Tónlist Kom út úr skápnum er hún lýsti yfir stuðningi við Harris Lífið Fleiri fréttir „Eins og nýfráskilin kona á fjórða búbbluglasi“ Sjá meira
Málþingið Svipbrigði sársaukans verður haldið í Háskóla Íslands dagana 1. til 3. september. Þar kemur saman fólk úr ólíkum fræðigreinum og ræðir um sársauka og þjáningu frá ýmsum hliðum. Fyrirlesarar málþingsins, sem á ensku nefnist The Many Faces of Pain, koma úr bókmenntafræði, heilbrigðisvísindum og gervigreindarfræðum. Auk þess taka þrír rithöfundar til máls. Markmiðið er að fá þátttakendur til að bera saman bækur sínar og efla þannig skilning á sársauka og þjáningu sem flestir þekkja af eigin raun. Hjúkrunarfræðingurinn Sigríður Zoëga er einn þriggja skipuleggjenda málþingsins. Hún starfar við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og í verkjateymi Landspítalans. Hún segir hugmyndina hafa kviknað hjá Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur, prófessor í íslensku, sem hefur lengi velt fyrir sér tengslum hug- og heilbrigðisvísinda. „Einn doktorsnemi hennar hefur verið að skoða sársauka og út frá því fórum við ásamt Hannesi Högna Vilhjálmssyni, hjá Gervigreindarsetri HR, að velta fyrir okkur hvort ekki væri hægt að setja saman málþing þar sem efnið væri skoðað frá sem flestum hliðum.“ Sigríður segir líkamlegan og tilfinningalegan sársauka tengjast órjúfanlegum böndum. „Við skynjum líkamlega verki en um leið verður til tilfinningaleg reynsla. Við fótbrot fer af stað ákveðið ferli í líkamanum en um leið verður til túlkun á verkjaboðunum í heilanum. Við hugsum; hverju breytir þetta fyrir mig og hvernig líður mér.“ Sigríður segir margt spila inn í upplifun fólks af sársauka og að ýmislegt sé hægt að gera til að hafa áhrif á verkina. Þá er ekki aðeins átt við hefðbundin inngrip og verkjalyf heldur sé í raun nauðsynlegt að vinna með einstaklinginn í heild. Fimm lykilfyrirlesarar taka þátt í málþinginu, sem fer fram á ensku. Þeir koma allir að utan en auk þess taka fimmtán Íslendingar til máls. „Við sem tengjumst heilbrigðisvísindunum nálgumst efnið að mestu út frá þessum hefðbundnu líkamlegu verkjum en síðan verða þarna fyrirlesarar sem tala um sársauka hjá samkynhneigðum og innflytjendum svo dæmi séu nefnd. Þá mun sálfræðingurinn Christopher Eccleston, sem leiðir verkjarannsóknir við háskólann í Bath, fjalla um sálfræði líkamlegrar skynjunar svo dæmi sé tekið.“ Sigríður segir markmiðið ekki síður að fjalla um um þjáninguna og mun Valgerður Sigurðardóttir, yfirlæknir á líknardeild Landspítala, meðal annars koma inn á þjáningu við lífslok. „Þá er ekki aðeins um að ræða líkamlega þjáningu heldur líka þjáninguna sem felst í yfirvofandi andláti og þeim hugsunum sem bærast með fólki í þeim sporum.“ Rithöfundarnir Naila Zahin, Auður Ava Ólafsdóttir og Hallgrímur Helgason leggja svo sitt af mörkum en þau hafa öll fengist við sársauka og þjáningu, hvert með sínum hætti. Sjálf heldur Sigríður erindi undir yfirskriftinni Pain, is it a problem? Í starfi sínu á Landspítalanum hittir hún bæði inniliggjandi sjúklinga og fólk sem kemur inn á göngudeild og veitir ýmiss konar verkjameðferð, fræðslu og ráðgjöf. „Við erum þó ekki síður að fylgja fólki eftir og fræða það um þá möguleika sem standa til boða ásamt því að veita stuðning, enda óhjákvæmilegt að sinna andlega þættinum samhliða þeim líkamlega.“ Að sögn Sigríðar byrjar fólk oft á því að reyna að sannfæra hana um að það sé með verki. „Ef um er að ræða fótbrot eða botnlangakast sjást verkirnir yfirleitt utan á fólki. Þegar um langvinna verki er að ræða eru þeir hins vegar ekki eins sýnilegir og margir lenda í því að þeim er hreinlega ekki trúað.“ Sigríður segir bráða verki grunnviðbragð sem hjálpi fólki að halda lífi. „Þeir gefa okkur merki um að eitthvað sé að svo við drögum okkur í hlé, hvílumst eða leitum aðstoðar. Þegar um langvinna verki er að ræða hætta þeir að vera þetta viðvörunarmerki. Taugakerfið fær engu að síður áfram boð um að eitthvað sé að og við finnum áfram til.“ Sigríður segir ýmsa sjúkdóma liggja að baki miklum verkjum. Má þar nefna HIV, gigt, sykursýki, krabbamein og ýmsa taugasjúkdóma. Sömuleiðis áverka eftir slys og verki í tengslum við aðgerðir. „Stundum vitum við þó ekki hvað orsakar verkina. Fólk getur til dæmis verið með slæma verki í baki þótt ekkert sjáist á mynd. Það reynist mörgum erfitt því þá er engin haldbær skýring. Verkirnir eru eftir sem áður til staðar.“ Nýverið spurði Sigríður sjúkling hver upplifun hans væri af því að vera með króníska verki. Hann svaraði því til að verkirnir hefðu stolið frá honum lífinu. Hann gæti ekki gert það sama og aðrir og að verkirnir settu hann til hliðar í samfélaginu. Hann sagði þó erfiðast að verkirnir sæjust ekki utan á honum. Spurð hverjum málþingið sé ætlað segir Sigríður það opið öllum og ókeypis inn. „Við þjáumst öll og sumir segja þjáninguna jafnvel nauðsynlega til að finna tilgang lífsins. Við getum því öll speglað okkur í efninu.“ Allar nánari upplýsingar er að finna á hi.is
Mest lesið Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Lífið Galvaskar Gucci gellur á galakvöldi Tíska og hönnun Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Lífið Sunneva nefndi son Jóhönnu Lífið Segist aldrei myndu deita Depp Lífið Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Lífið Stjörnulífið: Hrekkjavaka og seiðandi kroppar Lífið Tjáði sig óvænt um sína fyrrverandi Lífið Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Tónlist Kom út úr skápnum er hún lýsti yfir stuðningi við Harris Lífið Fleiri fréttir „Eins og nýfráskilin kona á fjórða búbbluglasi“ Sjá meira