Tvíburasysturnar Elín og Jakobína Jónsdætur eru afar samstíga. Þær eiga báðar þriggja ára drengi og eiga báðar von á sínu öðru barni. Að þessu sinni eru rúmar sex vikur á milli og aftur er von á drengjum.
„Ég æfði CrossFit fram á síðasta dag alla síðustu meðgöngu og fannst það bara gera mér gott. Það gaf góða raun og hafði engin óæskileg áhrif á meðgönguna,“ segir Elín sem gekk 16 daga fram yfir og var sett af stað.
Elín lyftir þungu, gerir upphífingar og svokölluð burpee‘s svo dæmi séu nefnd, en skalar æfingarnar niður eins og hentar. „Ef ég finn samdrætti hægi ég á mér og styð mig við kassa, lóð og bolta til að varna því að ég þurfi að beygja mig um of eða að bumban rekist í gólf. Ég geri lítið sem ekkert af kviðæfingum ef frá er talinn hliðarkviður og er hætt að hlaupa. Ég hjóla þeim mun meira og fer í róðrarvélina,“ segir Elín sem er komin rúmar 35 vikur á leið í dag. Það sama á við um Jakobínu systur hennar sem er komin 29 vikur á leið.
Elín mælir ekki endilega með jafn kröftugum æfingum fyrir allar óléttar konur en segir þó enga ástæðu til að reyna ekki að halda sér í formi þótt barn sé undir belti. „Þetta fer allt svolítið eftir því hvað hver og ein kona hefur verið að gera áður. Við erum eins ólíkar og við erum margar og það sem einni finnst allt í lagi finnst annarri óþægilegt. Þær sem hafa lítið hreyft sig ættu líkast til ekki að byrja á þessu en þær sem eru virkar geta vel reynt að halda sér við.“
Elín segir hreyfingu á meðgöngu ekki snúast um að bæta sig heldur að líða vel og halda sér í formi. „Mér líður persónulega ótrúlega vel eftir að hafa hreyft mig og svitnað aðeins. Ég fyllist orku og endorfíni og held að í mínu tilfelli geri það barninu gott auk þess sem ég verð að öllum líkindum fljótari að ná mér.“ Elín segir æfingar þeirra systra á meðgöngu ekki fara fram hjá iðkendum Granda101 og vonar að það veiti þeim konum hvatningu sem treysta sér til að æfa á meðgöngu.
Elín og Jakobína æfðu sund á árum áður og eiginmaður Elínar, Númi Snær, var landsliðsmaður í sundi. „Síðan höfum við alltaf hreyft okkur en það var ekki fyrr en sumarið 2010 sem við Númi byrjuðum í CrossFit. Við vorum þá nýflutt til Stokkhólms og byrjuðum í CrossFit Nordic.“
Elín lagði stund á alþjóðasamskipti og starfaði í íslenska sendiráðinu í Stokkhólmi. Númi náði strax góðum tökum á CrossFit og keppti í sinni fyrstu einstaklingskeppni 2012 á meðan Elín tók þátt í hópakeppnum. Þau hjónin gerðust síðar hluthafar í CrossFit Nordic og eru það enn. „Það er mikill félagsskapur í kringum CrossFit og þetta varð eins og fjölskylda okkar á meðan við vorum úti,“ upplýsir Elín.
Í byrjun árs ákváðu þau Númi að flytja aftur heim og stofna CrossFit-stöð úti á Granda. „Jakobína systir hafði verið að þjálfa CrossFit hér heima og við ákváðum að leiða saman hesta okkar. Við erum báðar aldar upp á Seltjarnarnesi og búum þar í dag. Okkur fannst vanta CrossFit-stöð í vesturborgina og fengum húsnæði að Fiskislóð 49-51. Stöðin var opnuð í lok febrúar og eru iðkendur þegar orðnir 300 talsins. „Við fyllum hvert námskeiðið á fætur öðru og gætum ekki verið ánægðari með viðtökurnar, þær eru framar björtustu vonum,“ segir Elín.
Hún segir árið hafa verið verulega viðburðaríkt hjá þeim systrum; flutningar, stofnun fyrirtækis og frekari barneignir. Þegar hún er spurð hvort þær hafi planað að verða samferða hlær hún við: „Ja þetta var nú næstum einum of mikið af því góða.“ Fimm mánuðir eru á milli eldri sona þeirra systra en nú eru það sem fyrr segir aðeins rúmar sex vikur. „Við höfum stundum reynt að fara ólíkar leiðir í lífinu en einhvern veginn virðumst við alltaf enda í takt.“
Svíþjóð
Ísland